Rabb-a-babb 143: Sóla

Nafn: Sólveig Olga Sigurðardóttir, eða bara Sóla eins og afi gamli tók upp á að kalla mig barnunga og festist strax við mig.
Árgangur: 1973.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Arnari Kjartanssyni og á dæturnar Sunnu Líf (19) og Katrínu Sif (11) ásamt bónusdrengum Orra (22).
Búseta: Birkihlíðin á Króknum.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Dóttir Sigga og Gunnu á Sjávarborg (eða réttara sagt Borgargerði en það kannast færri við það nafn). Ég er alin upp á fjölskyldutorfunni hérna niður frá, Sjávarborg.
Starf / nám: Ég starfa núna hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Ég er landslagsarkitekt að mennt og er í fjarnámi núna í garðyrkjuskólanum, mér til ánægju og yndisauka.
Hvað er í deiglunni: Úff það er nú ýmislegt, ætli það sé ekki einna helst að trassa ekki skuldbindingarnar í námi, starfi og ekki hvað síst gagnvart heimili og fjölskyldu. Og reyna svo að njóta þessa alls í leiðinni.

Hvernig nemandi varstu?  Bara ágætur held ég, en fékk þó einhvern tímann umsögn í grunnskóla um að vera óþarflega málgefin. En á síðari stigum skólagönguvar vandamálið frekar á hinn veginn og var þá of mikið til baka. Maður getur aldrei gert öllum til geðs.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég vil nú ekki blóta í þessu viðtali en það er sko alveg tilefni til. Ekkisens fermingarfötin eru nú það sem stendur upp úr þessum ágæta degi því miður. Ég hafði ekkert um að segja hvernig þau litu út en þetta var hin hroðalegasta brúna buxnadragt með axlapúðum í yfirstærð.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Dýralæknir, aldrei neitt annað en dýralæknir og langar það ennþá en er líklega að verða of sein...þótt ég sé reyndar ekki orðin stór....

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég man ekki eftir neinu sérstaku uppáhaldi. En ég var aldrei mikið fyrir dúkkur, held það hafi frekar verið Legó eitthvað sem mig minnir að hafi kallast Mekkanó. Á sumrin lékum við bróðir minn okkur mikið í búinu okkar og svo smíðuðum við fleka sem við sigldum á um Áshildarholtsvatnið, Lómatjörnina og Miklavatnið. Á veturna voruð það skautarnir og sparksleðinn sem eru minnisstæðastir.

Besti ilmurinn? Nýslegið gras, lykt af snoppu á hesti og lykt af ungbörnum. Get ekki gert upp á milli held ég.  

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið (hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. 17 ára)? Ég var óskaplegur rokkhundur og er svo sem enn og á þessum tíma var hlustaði ég mikið á Metallica, Ozzy, Queen og Red hot chilli peppers. Svo dýrkaði ég líka Prodigy á þessum tíma. 

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Ég myndi nú seint syngja í kareókí sökum hæfileikaskorts en ef ég hefði hæfileika þá held ég ég fengi gríðarlega mikið út úr því að syngja Since i've been loving you með Led Zeppelin.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Má segja veðurfréttir? Mér er allavega oft strítt á því hvað ég er upptekin af veðurfréttum. En fyrir utan þær þá missi ég ekki af náttúrulífsmyndum og hvers kyns vísindaþáttum. Svo finnst mér breskir krimmar og danskar svartar gamanmyndir fínasta efni sem ég missi ekki af.

Besta bíómyndin? Rosalega erfið spurning. Ég held alltaf upp á Stellu í orlofi, sem er svolítið merkilegt því íslenskar myndir hafa ekki höfðað sérstaklega til mín. Svo dýrka ég alveg I Kina spiser de hunde og Gamle mænd i nye biler. Þessar þrjár þarf ég að sjá reglulega til að halda geðheilsunni.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Held það sé nú bara íþróttaálfurinn dóttir mín.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Pæli nú lítið í því en kannski að þrífa baðherbergið og þrífa eftir hundinn.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Sósur segir eiginmaðurinn og marengstertur. Reyndar myndi ég nú aldrei kalla það snilld sem ég framkalla í eldhúsinu enda finnst mér almennt leiðinlegt að elda.

Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaði.

Hvernig er eggið best? Hrært.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvatvísi, óþolinmæði og pirringur.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki, hroki og undirferli.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Vertu þú sjálfur J

Hver er elsta minningin sem þú átt? Í kringum 3ja ára aldurinn í eldhúsinu hjá ömmu og afa á Sjávarborg sem mér fannst svo rosalega stórt þegar ég var lítil. Minningin er líklega ekki ein heldur margar svipaðar þar sem ég var eitthvað að dunda mér hjá ömmu. Hljóðið í heitavatninu, skurk í pottum og lykt af kaffi og kaffibrauði tengist þessum minningum líka.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Kolbeinn kafteinn finnst mér hafa skemmtilegan orðaforða.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera (og af hverju)? Æi, ég myndi aldrei vilja vera fræg.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)?  Ég held ég verði að segja Þjóðsögur Jóns Árnasonar, ég hef allavega oftast gripið niður í þær frá því ég var krakki. Svo finnst mér Stefán Máni og Steinar Bragi skemmtilega drungalegir og draumkenndir.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ekkert eitt sem mér dettur í hug en ég er víst frekar orðljót og nota blótsyrði kannski óþarflega mikið sem áhersluorð.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Gandhi, með sinn magnaða friðar- og kærleiksboðskap.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu (og af hverju)? Aftur í eldhúsið til ömmu held ég bara.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Bara dettur ekkert í hug.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...  til  Borneó eða Súmötru til að heimsækja fjarskylda ættingja mína órangútana sem ég hef alltaf haft mikið dálæti á.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Vasahníf og tvær bækur.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Að verða amma held ég að sé toppurinn, hitta blessaða órangútanana og fara í heimsreisu. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir