Goodbye Yellow Brick Road í uppáhaldi / JÓN ÓLAFS

Jón Ólafs alveg sultuslakur. MYND AF FACEBOOK
Jón Ólafs alveg sultuslakur. MYND AF FACEBOOK

Jón Ólafsson, tónlistarmaður, fæddist á Íslandi á síðustu öld. Kappinn er reyndar ekki tengdur Norðurlandi vestra á nokkurn hátt en á margar góðar minningar frá því að spila á sveitaböllum í Miðgarði, á Blönduósi og víðar á svæðinu. Óhætt er að fullyrða að hann hafi haft fingurna á kafi í tónlistarlífi Íslendinga frá því um mitt eitís þegar hann og Stefán, vinur hans og gítarleikari Hjörleifsson, dúkkuðu upp sem Possibillies og sungu um móðurást.

Jón var m.a. með útvarpsþáttinn Létta spretti á Rás 2 og margir máttu ekki til þess hugsa að missa af þeim fínu þáttum. Eftirminnilegur er þáttur þar sem hann var svo hrifinn af einu lagi þáttarins að hann spilaði það fimm sinnum í röð. Þá skrifaði hann bráðskondna smáskífudóma og kallaði meðal annars þá Wham-bræður „hina sólbekkjabrúnu Knold & Tot“ umsjónarmanni Tón-lystarinnar til nokkurar armæðu. Jón var einn af stofnendum Bítlavinafélagsins og Sálarinnar hans Jóns míns en frá árinu 1990 hefur hann verið meðlimur Nýdanskrar. Ári síðar fékk hann tæki-færi til að veifa tónsprotanum framan í strengjasveit ítalska ríkissjónvarpsins þegar Stebbi og Eyfi fluttu Nínu í pastellitum í Júróvisjón.

Jón hefur unnið með óteljandi listamönnum. Ungum og upprennandi eins og Ragnheiði Gröndal og Emilíönu Torrini og lengra komnum eins og til dæmis Ragga Bjarna og Megasi. Hann segir enda það besta við að starfa í tónlist vera allt það frábæra fólk sem hann hefur kynnst á ferlinum. Og lögin sem liggja eftir hann eru mýmörg og mörg hver hafa lifað með þjóðinni og munu lifa þar áfram. Hverjir hafa ekki svifið um loftið eins og ástfangnar flugvélar? Hver kannast ekki við tvítuga töffarann Auðbjörn? Hver hefur ekki sest niður við borðið með sólinni á sunnudagsmorgni? Og hver hefur ekki sungið hástöfum: LÍFljómi þinn er skínandi skær?

Það er eiginlega að bera í bakkafullan lækinn að reyna að gera ferli og tónlistarafrekum Jóns einhver gáfuleg skil. Þeir sem vilja kynna sér Jón betur geta kíkt á heimasíðuna jon.is.

Þegar Feykir frekjast inn í líf Jóns í Facebook-skilaboðum er hann að vinna að undirbúningi Trúbrots-tónleika, Ladda tónleika og stendur í ströngu á fleiri vígstöðvum að eigin sögn. Hann er því m.a. að hlusta á What We Believe In með þeirri ástsælu sveit.

Uppáhalds tónlistartímabil? Segjum 1967-1977, Bítlar, Spilverk, Stranglers.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Núna er svo mikið að gera við að stúdera annarra manna tónlist að það gefst ekki tími til neins annars.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Alls konar. Allt frá Megasi til Bítlanna.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? 45 snúninga: Popcorn. 33 snúninga: Gæti verið Goodbye Yellow Brick Road með Elton John

Hvaða græjur varstu þá með? Bara stofupíanóið hennar mömmu.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? No Milk Today og Michelle.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Æi, þarna coverlagið sem Eddie Vedder rústaði um árið.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það yrði líklega soul frá 70's, t.d. Aretha Franklin, Otis Redding o.fl.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Bara það sem ég er að fara að spila í þætti mínum á Rás 2.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Tæki með mér Hildi Völu, mína frú, og við færum að sjá Bruce Springsteen eða Stevie Wonder á Balí.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Það var bara útvarp í mínum bíl.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Elton John, Paul McCartney, Sigurður Bjóla.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Goodbye Yellow Brick Road - Elton John.

Ef þú ættir að velja eitt lag sem yrði spilað við útförina þína, hvaða lag væri það? Þetta er of mikil pæling til að ég nenni að velta þessu fyrir mér!

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Núna eru efstu lögin úr teiknimyndinni Encanto – þökk sé Þórhildi Júlíu, dóttur minni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir