Rabb-a-babb 160: Arna Björg

Arna Björg (til vinstri) ásamt móðursystur sinni Guðbjörgu á góðri stundu í Noregi.  AÐSEND MYND
Arna Björg (til vinstri) ásamt móðursystur sinni Guðbjörgu á góðri stundu í Noregi. AÐSEND MYND

Nafn: Arna Björg Bjarnadóttir.
Árgangur: 1976.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Steingrími Karlssyni og eigum alls fjögur börn.
Búseta: Valþjófsstaður í Fljótsdal.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er alin upp í Ásgeirsbrekku í Skagafirði en er ½ Norður-Þingeyingur, ¼ Skagfirðingur og ¼ Svarfdælingur. 
Starf / nám: Sagnfræðingur með atvinnulífsfræði sem aukagrein og MA í hagnýtri menningarmiðlun. Framkvæmdastjóri Óbyggðasetursins sem staðsett er á Austurlandi.
Hvað er í deiglunni: Að vinna minna og njóta meira augnabliksins.

Hvernig nemandi varstu? Samviskusöm á köflum en ákaflega kærulaus þess á milli. Þá kom fyrir að óstjórnlegur galsi braust fram í mér á unglingsárum sem átti lítt upp á pallborðið hjá kennurum, þannig að ég endaði fram á gangi eða hjá skólasjóra. Hjá þeim kennurum sem virkilega kveiktu hjá mér neista hagaði ég mér eins og ljós – held ég. Þegar ég lauk Mastersnámi var ég alveg farin að sitja kyrr.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að Siggi bróðir skyldi vaska upp

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Leikkona. Um tíma ætlaði ég þó að verða sæðari og hárgreiðslukona og skrifaði það í minningarbækur skólasystkina minna. Ég held mig hafi langað svo að vinna í hönskum. En þá voru hárgreiðslukonur með hanska þegar þær settu permó í konur og allir vita um hanskabúnað sæðingarmanna. Ég man þó að ég velti fyrir mér hvort ég gæti notað sömu hanskana í bæði verkin.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Barbí. Ég eignaðist aldrei Ken og í því felst biturleiki æsku minnar.

Besti ilmurinn? Nýslegið gras.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ný Dönsk.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Mama Mia.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Er ekki með tengt sjónvarp.

Besta bíómyndin? Hrútar, hver vill ekki horfa á bíómynd sem gæti verið tekin upp í sveitinni heima?

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Íþróttaálfinum. 

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að vakna á morgnana.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Naglasúpan og alls konar skapandi naglamáltíðir.

Hættulegasta helgarnammið? Lítið er keypt af nammi á heimilið – en besta helgarnammið mitt eru bláber með sykri og rjóma klukkan 11 á laugardagskvöldum.

Hvernig er eggið best? Hrært og steikt með bræddum osti, fetaosti og barbieque sósu. 

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég er nú ekkert mikið að spá í það. Helst þó þegar ég keyri yfir tölvuna mína. 

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Það er mitt val hvort ég læt fólk fara í taugarnar á mér. Oftast nenni ég ekki að velta mér upp úr einhverjum hugsanlegum vanköntum sem kunna að liggja hjá öðru fólki. Það er ágætt að hafa í huga að oftast eru flestir að reyna að gera sitt besta og vilja vel. 

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Mitt uppáhald er skagfirski húsgangurinn sem ég hef þó heyrt fleiri en eina útgáfu af;
Að lifa kátur lífs er máti bestur. 
Þó að bjáti eitthvað á, 
að því hlátur gera má.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Eitt vetrarkvöld þegar við komum heim úr Króknum á bláa Landrover með nýtt litasjónavarp og nýfædda systur í burðarrúmi aftur í.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Jenni.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Dali Lama. Þar er á ferðinni svo þroskuð og heilbrigð lífsýn. Ég er mjög hliðholl Búddisma og hlakka til að fara til Tíbet einhvern daginn.

Hver er uppáhalds bókin þín eða rithöfundur? Jón Kalman – bækurnar hans eru einfaldlega konfekt eða öllu heldur eins og bláber með sykri og rjóma.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Þetta er snilld.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Amma Bogga og allar hinar húsfreyjurnar. Konurnar sem vöknuðu fyrst á morgnana og fóru síðastar að sofa á kvöldin, en engum datt í hug að færa á spjöld sögunnar.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Á Melrakkasléttuna til afa og ömmu, vegna þess að faðmurinn þeirra var svo hlýr, lundin svo létt og þau voru snillingar að skapa ný ævintýri úr fábreytileikanum þarna við ysta haf. Þá höfðu þau einstakt lag á að hvetja mann og efla. Skemmtilegast væri ef öll stórfjölskyldan væri saman komin í Nesi hjá afa og ömmu.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Á sporaslóð.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
 til Raufarhafnar með millilendingu í Tíbet.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Gefa út skáldsögu. Að sjá með berum augum helst alla list Michelangelos, sérstaklega þó Pietu. Halda á barnabarni mínu... já og láta verða af því að halda upp á 35 ár afmælið mitt, þó seint verði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir