Rabb-a-babb 194: Magdalena

Magdalena. AÐSEND MYND
Magdalena. AÐSEND MYND

Nafn: Magdalena Margrét Einarsdóttir.
Árgangur: 1976.
Fjölskylduhagir: Gift Pétri Snæ Sæmundssyni og saman eigum við tvö börn.
Búseta: Brekkukot í Þingi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Foreldrar mínir eru Einar Svavarsson og Sigríður Hermannsdóttir á Hjallalandi í Vatnsdal og þar er ég alin upp.
Starf / nám: Ég er bóndi og grunnskólakennari í Húnavallaskóla. Í vetur stunda ég diplómanám frá HÍ, íslenska sem annað tungumál og lýk ég náminu nú í vor.
Hvað er í deiglunni: Skila ritgerð, hleypa til og njóta aðventunnar.

Rabbið:

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ætli veðrið sé ekki eftirminnilegast og afleiðingar þess. Daginn fyrir ferminguna mína var stórhríð og það var mikill snjór á fermingardaginn. Þar af leiðandi var kirkjan kynt mjög vel og við það vöknuðu íturvaxnar fiskiflugur sem tóku þátt í athöfninni af mikilli innlifun. Ég man meira eftir flugunum suðandi í kringum okkur fermingarsystkinin heldur en því sem presturinn sagði. Annars var dagurinn yndislegur í alla staði. Veislan var haldin í Flóðvangi og hafði móðir mín, ásamt ættingjum og vinum, útbúið veglega veislu. Í fermingargjöf fékk ég margar fallegar gjafir, orðabækur eins og tíðkaðist á þeim tíma en besta gjöfin var píanó.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði að verða bóndi og stunda tamningar. Ekki var á dagskrá að verða kennari en það er ég í dag ásamt því að vera bóndi en engar tamningar stunda ég.

Besti ilmurinn? Ilmurinn af rjúpunum á jólunum.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Í Þýskalandi árið 1998.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Það hefur örugglega verið Sálin hans Jóns míns.

Hvernig slakarðu á? Ég slaka best á í heitapottinum eða í göngutúr.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Father Brown, snilldarþættir.

Besta bíómyndin? Útlaginn.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Ég hef mestar mætur á Guðjóni Vali Sigurðssyni.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Þrífa.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Humarsúpa.

Hættulegasta helgarnammið? Snakkpokinn.

Hvernig er eggið best? Eggið er langbest í köku.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað ég er gleymin en ég man ekki fyrir horn.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Þegar fólk smjattar og grípur fram í.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Sá vægir sem vit hefur meira.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég vildi vera Bill Gates og borga allar skuldir mínar og minna nánustu. Því næst hjálpaði ég bágstöddum og að lokum myndi ég endurnýja tölvukerfi Húnavallaskóla.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Brennu-Njáls saga. Ég las hana í grunnskóla og Guðrún Bjarnadóttir frá Guðrúnarstöðum kenndi mér íslensku og hjá henni lásum Njálu og fórum í ferðalag á Njáluslóðir. Guðrún hefur einstaka hæfileika sem kennari og gat hún gert söguna svo áhugaverða að mér fannst sögupersónur verða ljóslifandi í huga mér. Annars get ég jafnframt nefnt Ronju Ræningjadóttur og Bróðir minn ljónshjarta sem sitja enn í hjarta mínu frá því ég las þær sem barn.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Hvað er að frétta???

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Eiginmanni mínum og börnunum tveimur vegna þess að þau standa mér næst. En ég gæti ekki skilið foreldra mína útundan því þau hafa alltaf staðið við bakið á mér og mínum.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi aftur til æskuáranna til að geta notið þess að vera á Holtabrautinni hjá Mæsu og Þormóði. Þar var ýmislegt brallað og á ég margar góðar minningar þaðan.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Grimmhildur Grámann – „Eigðu við mig orð.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir