Rabb-a-babb 86: Arnþrúður Heimis

Nafn: Arnþrúður Heimisdóttir.
Árgangur: 1971.
Fjölskylduhagir: Hér eru í heimili bóndi minn Þorlákur Sigurbjörnsson, og synir okkar Orri Sigurbjörn og Heimir Sindri.
Búseta: Langhúsum, Fljótum.
Hverra manna ertu: Faðir minn heitinn er Heimir Steinsson, skólastjóri í Skálholti og prestur á Þingvöllum.  Móðir mín er Dóra Þórhallsdóttir, hún var bústýra og þúsundþjalasmiður í Skálholti og Þingvöllum og vinnur nú við móttöku á RÚV.
Starf / nám: Ég tók FT-prófið við Hólaskóla á sínum tíma, búvísundinn á Hvanneyri og kennararéttindin við KÍ.  Þá tók lífið við og nú er ég bóndi og tamningamaður á Langhúsum og grunnskólakennari við Sólgarðaskóla.
Bifreið: Nissan Navara.
Hestöfl: Hahva... Nóg til að draga nokkur lifandi hestöfl á kerru, eða puðast gegnum ekta norðlenskan snjó.  Jú svo eru líka fjölmörg lifandi hestöfl sem bolloka hér og þar í hesthúsi og beitarlandi Langhúsa.
Hvað er í deiglunni:  Að temja góða hesta, fræða ungu kynslóðina og njóta hverrar stundar hér á þessu jarðríki,.

Hvernig hefurðu það? Ég er ævinlega margblessuð.
Hvernig nemandi varstu?  Með fullkomnunaráráttu í náminu, en hugann til fjalla og úti í sveit.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að Jesús kallinn er ósköp viðkunnanlegur og orð hans gott leiðarljós í lífinu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Dýrasálfræðingur af vísindalegra taginu.
Hvað hræðistu mest? Sprautur.  Ég þoli ekki einu sinni að sjá sprautur í sjónvarpi.
Hver er besta platan sem þú hefur keypt? Murder ballads með Nick Cave er í algeru uppáhaldi, líka allt íslenskt þungarokk, þjóðlög og ættjarðarlög.  Semsagt, ég er mjög hrifin af krafti, bassatrommum og strigabassaröddum.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Fjöllin hafa vakað í þúsund ár... eða Wild thing, you make my heart sing...
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)?  Náttúrulífsþáttum og fræðsluþáttum af víðáttufjölbreyttu tagi.
Besta bíómyndin?  The princess bride - ógleymanlegt snilldarverk, bráðfyndin hrásteypa.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Laga tölvur sem eru þversum.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Ég er alveg þjökunarlaus af snilligáfu í eldhúsinu.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann?  Ávextir af öllu tagi.
Hvað er í morgunmatinn?  Fyrst kaffi.  Svo klukkutíma seinna meira kaffi, og gróffóður af einhverju tagi.
Uppáhalds málsháttur?  Öll él styttir upp um síðir.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Andrés önd og allt hans hyski, helst á dönsku.
Hver er uppáhalds bókin þín?  Þær eru svo ótal margar.  Án Íslenskrar orðabókar eða Sýnisbókar íslenskra bókmennta til 1750 hans Sigurðar Nordal gæti ég þó vart á heilli mér tekið.  Það er svo gaman að smjatta á bragðmiklum orðum.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...til Ástralíu.  Ástralskar bíómyndir sýna heillandi veruleika, miklar víðáttur og frelsi, háskaleg veður, sérkennilega náttúru, stórskrítið fólk með ruddalegan húmor, sæluhrollvekjandi fagran framburð, skeggbrodda og svitalykt, og hesta.  Hmmm... eitthvað svipað og dró mig til Skagafjarðar býst ég við.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað ég sökkvi mér ofan í verkefni líðandi stundar - og steingleymi mér.  Til allrar hamingju er ég umkringd góðu fólki sem hlær bara með mér þegar ég er hvað vitlausust.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?  Þegar fólk er sífellt að finna að háttalagi fólks í kringum sig, neikvætt fólk getur verið miklar vitsugur.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? Jæja, er ekki gott veður hjá þér?
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Bjarni Jónasson, Mette Manseth og Þórarinn Eymundsson, hestaíþróttamenn sem fá það besta út úr hestunum með litla putta.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? Ef það er íslenskt, og hægt að þenja sig við að dansa eða syngja við lagið, þá hugnast mér hnoðið.  Semsagt, gott báðum megin.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? Vigdís Finnbogadóttir.  Hún sýndi okkur stelpunum að við gátum gert hvað sem við ætluðum okkur að gera - og það með myndugleik og virðuleika.
Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér?  Rafbókalesara með nettengingu svo ég hefði nóg að lesa.  Tjald.  Gervihnattasíma, svo ég gæti hringt eftir hálfs árs notalegheit með sjálfri mér og látið sækja mig.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Mér hefur aldrei leiðst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir