Draumur Stólastúlkna varð ekki að veruleika þetta vorið

Andriana Kasapi sækir að vörn Aþenu. Hún átti fína leiki í úrslitakeppninni. MYND: SIGURÐUR INGI
Andriana Kasapi sækir að vörn Aþenu. Hún átti fína leiki í úrslitakeppninni. MYND: SIGURÐUR INGI
Draumur Stólastúlkna um sæti í Subway-deildinni í haust rættist ekki þetta vorið en mikið óskaplega voru þessir síðustu þrír leikir gegn liði Aþenu spennandi. Fjórði leikur liðanna fór fram í Síkinu í gærkvöldi og lið Tindastóls varð að næla í sigur til að tryggja sér oddaleik. Leikurinn var hnífjafn – þá erum við að tala um að hann var HNÍFJAFN allan tímann – og staðan til dæmis 72-72 þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Eins og í þriðja leiknum reyndist Sianni Martin það sem skildi á milli á lokasekúndunum og lið Aþenu gerði fimm síðustu stig leiksins. Lokatölur 72-77 og Aþena vann þar með einvígið 3-1 og tryggði sér þar með sæti í Subway-deildinni.

 

Lið Tindastóls gerði fyrstu körfu leiksins, komst síðan í 12-5 en gestirnir svöruðu með tómum þristum og náðu þannig í skottið á Stólastúlkum á ný. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 19-18 en eftir það skiptust liðin á um að hafa forystuna. Lið Aþenu var yfir í hálfleik, 33-36, en áfram héldu liðin að malla í síðari hálfleik.

Brynja Líf skellti í þrist og kom liði Tindastóls fjórum stigum yfir, 51-47, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta en þá náði Aþena 1-8 kafla og var því enn þremur stigum yfir þegar fjórði leikhluti hófst. Staðan 52-55. Seinni þristur Brynju kom liði Tindastóls yfir, 65-62, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og við tóku naglbítamínútur þar sem lið Aþenu reyndist sterkara á taugasvellinu.

Andriana var stigahæst í liði Tindastóls með 21 stig, Ifu skilaði 15 stigum og átta fráköstum og Emese gerði 14 stig og tók 11 fráköst. Klara Sólveig og Brynja Líf voru báðar með átta stig en aðrar minna. Sianni Martin gerði 25 stig fyrir Aþenu og tók níu fráköst, Zieniewska gerði 15 stig og Kubrzeniecka 13.

Til hamingju Aþena!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir