Endurbætur í fullum gangi við Sauðárkrókshöfn

Framkvæmdir við hafnargarðinn á Sauðárkróki. Nýja þilið er þremur metrum framan við gamla kantinn. MYND: JÓN GEIRMUNDS
Framkvæmdir við hafnargarðinn á Sauðárkróki. Nýja þilið er þremur metrum framan við gamla kantinn. MYND: JÓN GEIRMUNDS

Miklar framkvæmdir eru við Sauðárkrókshöfn þessa dagana. Verktakafyrirtækið Árni Helgason ehf. vinnur nú fyrri hluta á endurnýjun á efri-garði Sauðárkrókshafnar. Áætluð verklok eru 1. júlí 2024 en seinni hlutinn af verkinu verður boðinn út síðar.

Í þessari atrennu verður skipt úr 89 metra kafla á efri garði Sauðárkrókshafnar af 200 metrum. Þessir 111 metrar sem eftir eru verða teknir síðar. Þegar blaðamaður spurði Dag Baldvinsson hafnarstjóra hvað væri um að vera á höfninni sagði hann helstu verkþætti vera að brjóta og fjarlægja kant, polla og þekju á núverandi bryggju. Grafið verður fyrir akkerisstögum og gengið frá stagbitum og stögum. Þessu fylgir jarðvinna, fylling og þjöppun auk þess sem reknar verða niður 67 tvöfaldar stálþilsplötur, komið fyrir 59 bakþilsplötum ásamt stagbita við bakþil. Steypa þarf um 89 m langan kantbita með pollum, kanttré, stigum og þybbum.

Heildarkostnaður er 142 milljónir með vsk. en ríkið greiðir 75% af verkinu.

Núverandi stálþil sem sett var upp 1975 er orðið ónýtt að sögn Dags og helstu kostir að lokinni þessari vinnu eru að hönnunardýpi þilsins verður meira en núverandi þil og því í framtíðinni hægt að taka á móti skipum sem rista dýpra. Auk þess verða pollar, neyðarstigar, vatnslagnir og rafmagn sett upp samkvæmt nútímakröfum. /gg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir