Fámennt en góðmennt á kosningavöku hjá Hannesi
Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi hélt kosningavöku sína í Miðgarði í Skagafirði sl. laugardagskvöld ásamt stuðningsfólki og vinum. Þó ekki hafi verið margt þá var góðmennt og mikil stemning í fólki sem strax var farið að undirbúa næstu baráttu þótt í gríni væri sagt.
Hannes sem kom óþekktur fram á sjónarsviðið í kosningabaráttunni segist halda að það hefði breytt litlu þó svo þau hefðu eytt miklum fjármunum í það að auglýsa framboðið. „Hitt hefði verið mun áhrifaríkara að koma frá stöðu í þjóðfélaginu þar sem andlit eða rödd var þekkt fyrir kosningar. Vissulega erum við nú orðin kunn almenningi og vonandi af einu góðu. Hvernig og hvort við munum nýta okkur það á þann hátt að líta til forsetaframboðs eftir fjögur ár höfum við ekki rætt“, segir Hannes og bætir við að þau hjón hafi rætt það hvernig þau geti nú komið að uppbyggingu eða unnið að velferðarmálum á Íslandi svo gott hljótist af.
„Hvað við gætum gert og þá hvernig vitum við ekki ennþá. En vonandi getum við látið gott af okkur leiða, í þágu bæði lands og þjóðar. Það er sannarlega draumur sem lifir ennþá þrátt fyrir að hafa tapað forsetakosningunum.“