Fyrsti heimaleikur sumarsins á Sauðárkróksvelli á morgun

Á morgun, laugardaginn 14. júní er loksins komið að fyrsta alvöru heimaleik meistaraflokks karla hjá Tindastóli. Strákarnir taka á móti ÍA á Sauðárkróksvelli og hefst leikurinn kl. 14:00.

Feykir hafði samband við Bjarka Má Árnason þjálfara hjá meisaraflokki karla.

- Já nú er loksins, loksins komið að fyrsta heimleik okkar. Við höfum undanfarinn mánuð æft í stórbænum Hofsós við fínar aðstæður og drengirnir hafa tekið því vel, því aðstæður á Sauðárkróki hafa ekki verið upp á sitt besta. Við tókum okkar fyrstu æfingu á æfingasvæðinu á Sauðárkróki á miðvikudagskvöldið, við mikla kátínu drengjanna. Við erum búnir að spila sex mótsleiki og þar af tvo ”heimaleiki", annan á Hofsósi og hinn á KA-gervigrasinu. Þess vegna er þetta virkilega kærkomið að fá loksins að upplifa þá dásemd að stíga fæti inn á eitt flottasta leiksvæði landsins, Sauðárkróksvöll. Það er alltaf sérstök tilfinning að spila á heimavelli og strákarnir eru virkilega spenntir yfir að fá að spila fyrir framan sitt fólk. Og eru þeir staðráðnir í að standa sig. Töluverðar breytingar hafa verið á leikmannahópi Tindastóls og meðal annars í síðasta leik voru 14 af 18 leikmönnum liðsins strákar sem eru uppaldir af Tindastóli og Hvöt. Því vona ég svo innilega að Skagfirðingar og Húnvetningar fjölmenni á völlinn og styðji við bakið á sínum mönnum. Verkefnið er ærið og þurfum við á ykkar stuðningi að halda. Áfram Tindastóll!

Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli átti einnig að spila sinn fyrsta heimaleik á Sauðárkróksvelli á morgun, en þar sem völlurinn þolir ekki álagið sem fylgir að spila tvo leiki í röð munu stelpurnar spila á móti Fjölni í Reykjavík og víxla þar með heimaleikjum.

Tekið 6. maí 2014. Ljósm./Ómar Bragi

Völlurinn í dag, 13. júní 2014. Ljósm./GSG

Fleiri fréttir