Heima í stofu á Sauðárkróki

Viðburðarséni okkar Skagfirðinga, Áskell Heiðar Ásgeirsson, stendur nú, ekki í fyrsta skipti, fyrir nýung í tónleikahaldi á Sauðárkróki í komandi Sæluviku. Um er að ræða svokallaða heimatónleika.

Hér er ekki verið að finna upp hjólið heldur á þetta form tónleika sér fyrirmynd á Íslandi, í Hafnarfirði, Akranesi og Reykjanesbæ. Þar sem þetta hefur vaxið ár frá ári og verið mjög vinsælt. Þetta er heldur ekki sér íslenskt fyrirbæri heldur þekkt víða um heim. Blaðamaður hitti Áskel Heiðar yfir kaffibolla og bað hann að leiða sig í allan sannleikann sem er um þessa spennandi tónleika.

Það verða þau Sigurlaug Vordís og Fúsi, Geirmundur Valtýsson, Malen, Sigvaldi, Magni og Jónas Sigurðsson með Adda og Guðna sem halda tónleika kvöldsins í sex mismunandi heimahúsum á Sauðárkróki. Það er einn miði sem gildir í öll hús og tónleikarnir byrja ekki allir á sama tíma þannig að gestum gefst kostur á að sjá sem flesta. Nákvæm stundaskrá verður gefin út með staðsetningu viðburða, listamannanna og tímasetningu tónleika þegar nær dregur. Tónleikarnir verða 30. apríl, á þriðjudegi, sem kann að hljóma svolítið skrítið en daginn eftir verður frí í boði verkalýðshreyfingarinnar.

Þegar Heiðar er spurður hvort vel hefði gengið að fá fólk til að bjóða heim sagði hann svo vera, það hefði gengið vonum framar, en ennþá væri mögulega laust eitt pláss ef einhver sem þetta les hefur alltaf dreymt um að halda tónleika heima í stofunni hjá sér, má sá hinn sami setja sig í samband við Heiðar. Svo er ekki nóg með að við getum notið listamannanna í heimahúsum Sauðkrækinga heldur verður eitt allsherjar partý að loknum heimatónleikum þar sem allir koma saman, listamennirnir og þeir sem eiga miða, og skemmta sér fram eftir nóttu.

Miða á þennan skemmtilega viðburð er hægt að nálgast HÉR.

Nánara viðtal við Áskel Heiðar er að vænta í Feyki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir