Hrafna Flóka reistur minnisvarði í Fljótum

Að undanförnu hefur hópur áhugamanna um uppbyggingu í Fljótum unnið að gerð minnisvarða um Flóka Vilgerðarson, Hrafna Flóka, í Fljótum. Í Landnámu segir að Hrafna Flóki hafi numið land í Vatnsfirði á Barðaströnd og haft þar vetursetu. Um veturinn féll allt kvikfé hans og um vorið gekk Flóki upp á fjall eitt og sá þá fjörð fullan af hafís og gaf þá landinu nafnið Ísland.

Flóki sigldi með allt sitt aftur til Noregs en var þó ekki alveg búinn að gefast upp á landinu í norðrinu og kom aftur til Íslands og nam þá land í Fljótum á milli Flókadalsár og Reykjarhóls og gerði sér bú á Mói í Fljótum.

Þann 11. ágúst nk. mun Ögmundur Jónasson vígja minnisvarðann sem staðsettur er í mynni Flókadals við Siglufjarðarveg. Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson hannaði minnisvarðann en Hjalti Pálsson gerði texta á upplýsingaskilti.

Fleiri fréttir