Ingunn og Sigurjón eru Sundkappar Skagafjarðar 2012

Héraðsmót UMSS í sundi var haldið þann 17. júní í blíðskapar veðri. Tólf keppendur voru skráðir til leiks og tókst mótið vel, samkvæmt fréttatilkynningu frá UMSS. Þar stóðu Sigurjón Þórðarson og Ingunn Kristjánsdóttir uppi sem Sundkappar Skagafjarðar 2012.

Sigurjón hefur nú unnið alls átta sinnum en þetta var fyrsti sinn sem Ingunn hreppir umræddan titil. Samkvæmt fréttatilkynningu var keppnin um Grettisbikarinn og sæmdartitilinn Sundkappi Skagafjarðar fyrst haldin árið 1940 en Kerlingin bættist við síðar.

Keppt var í eftirfarandi greinum, bæði í kvenna- og karlaflokki:

  • 200 m fjórsund
  • 100 m baksund
  • 100 m flugsund
  • 100 m bringusund
  • 100 m skriðsund
  • 4 x 50 m skriðsund, Boðsund
  • 500 m skriðsund, Kerlingin og Grettisbikarinn.

 „Enginn hafði skráð sig í boðsundið en á staðnum voru settar saman þrjár boðsundssveitir, tvær kvenna og ein karla,“ segir í tilkynningu en fjórar mæðgur frá Sauðárkróki, þær Anna Sóley, Sunneva, Thelma Lind, Matthildur Ingólfsdóttir, báru þar sigur úr býtum í kvenna flokki og unnu titilinn í annað sinn. Karlmenn kepptu einir í karlaflokki og lentu því í 1. sæti. Þeir voru Jóhann Ulriksen, Sigurjón Þórðarson, Valgeir Kárason og Jón Þór Jósepsson.

Stjórn sunddeildar Tindastóls skorar hér með á fyrirtæki í Skagafirði fyrir næsta Héraðsmót UMSS 17. júní 2013 safna fjórum einstaklingum í lið og taka þátt en stjórn sunddeildar ætlar að vera með.

Úrslit munu birtast á heimasíðu www.tindastoll.is á næstu dögum.

 

Fleiri fréttir