Matvælaráðherra kynnir breytta nálgun við útrýmingu riðu

Fyrsti hrútur landsins sem greinist með ARR arfgerðina. Gimsteinn 21-001 frá Þernunesi. Mynd: rml.is.
Fyrsti hrútur landsins sem greinist með ARR arfgerðina. Gimsteinn 21-001 frá Þernunesi. Mynd: rml.is.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur fallist á tillögu yfirdýralæknis um breytta aðferðafræði við útrýmingu riðuveiki. Tillagan hefur verið kynnt í ríkisstjórn, en hún felst í því að markvisst verði unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjárstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði. Þetta kemur fram á heimasíðu Stjórnarráðsins.

Þar segir að samkvæmt greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands, sem unnin var að beiðni yfirdýralæknis, sé unnt að hraða mjög ræktun fyrir verndandi arfgerðum með markvissum arfgerðargreiningum. Með því að ráðast í þá vinnu minnka líkur á riðusmiti, með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga og afleiddum áhrifum á samfélög.

Tillagan felst einnig í því að Matvælastofnun yrði heimilt að undanskilja frá niðurskurði fé sem sýnt er fram á að beri verndandi arfgerð. Því fé yrði því haldið í einangrun á viðkomandi jörð. Á þennan hátt má rækta upp fjárstofn með verndandi arfgerð á riðusvæðum samhliða því að styrkja sjúkdómavarnir.

„Stjórnvöld munu gera það sem þarf til að styðja bændur við að rækta upp verndandi arfgerðir gagnvart riðu. Samkvæmt tillögunni verða yfir 80% ásetts fjár á mestu áhættusvæðunum ólíkleg til að veikjast af riðu eftir fimm ár og þar af leiðandi hverfandi líkur á niðurskurði,“ segir Svandís í tilkynningu Stjórnarráðsins og heldur áfram: „Til að kveða megi niður þann vágest sem riðuveikin er þarf gott samstarf allra aðila, fjármögnun og afkastagetu við greiningar. Stefnt er að því að greina megi árlega 15 til 40 þúsund fjár og með þessum aðgerðum munu líkur á stórfelldum niðurskurði minnka hratt.“

Jafnframt segir í fréttinni að samkvæmt greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands nemi kostnaður við fyrrnefndar aðgerðir 567 milljónum á næstu sjö árum og verður sú fjármögnun tryggð.

Hér má sjá greinargerð Landbúnaðarháskólans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir