Stólarnir tryggðu sér sæti í úrslitum VÍS bikarsins með góðum leik

Helgi Margeirs og Svavar Birgis, þjálfarateymi Stólanna, kampakátir í Höllinni. Á FB-síðunni Skín við sólu má finna fjölda mynda af stuðningsfólki Stólanna sem Ómar Bragi smellti á netið. MYND: ÓBS
Helgi Margeirs og Svavar Birgis, þjálfarateymi Stólanna, kampakátir í Höllinni. Á FB-síðunni Skín við sólu má finna fjölda mynda af stuðningsfólki Stólanna sem Ómar Bragi smellti á netið. MYND: ÓBS

Það hefur verið talsvert mótlæti sem Íslandsmeistarar Tindastóls hafa mátt stríða við á þessu tímabili. Hver brekkan hefur tekið við af annarri og flestar hafa þær verið upp í móti. Eftir dapran leik gegn Þórsurum fyrir viku beið Stólanna erfitt verkefni í undanúrslitum VÍS bikarsins þegar liðið mætti Álftanesi í Laugardalshöllinni. Strákarnir sýndu þó að það er enn neisti í liðinu og endurkoma Arnars eftir meiðsli blés heldur betur lífi í glæðurnar. Niðurstaðan varð bísna öruggur sigur Tindastóls eftir skemmtilegan leik þar sem liðið sýndi gamla meistaratakta og tryggði sér úrslitaleik gegn Keflvíkingum á laugardag.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en Arnar og Tóti, sem byrjuðu á bekknum, hleyptu upp orkustigi Stólanna sem náðu sex stiga forskoti fyrir lok fyrsta leikhluta, staðan 17-23. Okkar menn gerðu síðan átta fyrstu stig annars leikhluta og náðu undirtökunum í leiknum. Fáir virtust klárir í slaginn í sóknarleik Álftnesinga og það var helst fyrir tilstilli Dúa og Giga að Stólarnir stungu ekki af en þeir náðu mest 15 stiga forystu upp úr miðjum leikhlutanum, 27-42. Staðan í hálfleik var 39-51.

Álftnesingur náðu að stilla saman strengi sína yfir te og rist og komu að meiri krafti til leiks í þriðja leikhluta. Þeir náðu að gera Stólunum erfiðara fyrir og smám saman dró saman með liðunum. Þegar rúm mínúta var eftir af leikhlutanum var munurinn kominn í tvö stig og einhverjir stuðningsmenn hafa sjálfsagt verið farnir að óttast hið versta. Það reyndist óþarfi því Tindastólsmenn mættu tvíefldir til leiks í lokafjórðunginn, gerðu 14 fyrstu stigin og Álftnesingar komust ekki á blað fyrr en leikhlutinn var hálfnaður og þá voru þeir þegar komnir í örvæntingarfasann sem sjaldnast gefur. Þeir náðu mest að minnka muninn í ellefu stig, 72-83, þegar tvær og hálf mínúta var til leiksloka en fleiri stig settu þeir ekki á töfluna.

Arnar var í gleðigírnum í gær og ekki laust við að það hafi smitað út frá sér. Hann var stigahæstur Stólanna með 22 stig en næstur honum kom Tóti, sem sömuleiðis átti toppeik, með 18 stig og hirti að auki tólf fráköst. Lawson gerði 13 stig, Woods 11 og Drungilas 10. Í liði Álftaness var Giga stigahæstur með 24 stig en hann gerði fimm 3ja stiga körfur í fimm skotum. Tölfræði Stóanna hvað varðar skotnýtingu og fráköst var töluvert betri en hjá andstæðingunum og nánast furða að sigurinn hafi ekki orðið stærri.

Í hinum undanúrslitaleiknum unnu Keflvíkingar öruggan sigur á Stjörnunni og mæta því liði Tindastóls í úrslitaleik í Laugardalshöllinni kl. 16 á laugardaginn. Stemningin Stólamegin í stúkunni var frábær í gær og verður örugglega ekki síðri í úrslitaleiknum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir