Stólastúlkur mæta liði ÍR fyrir sunnan

Ifunanya Okoro í baráttunni í leik gegn Hamri/Þór á dögunum. MYND: DAVÍÐ MÁR
Ifunanya Okoro í baráttunni í leik gegn Hamri/Þór á dögunum. MYND: DAVÍÐ MÁR

Í kvöld mætir 1. deildar lið Tindastóls í kvennakörfunni liði ÍR í næst síðasta leik sínum í deildarkeppninni. Liðin mætast í Skógarseli sunnan heiða og hefst leikurinn kl. 18:00. Síðasta umferðin verður síðan spiluð 2. apríl en þá kemur Keflavík b í heimsókn í Síkið.

Staðan á toppi 1. deildar er hnífjöfn og spennandi líkt og hún hefur verið í allan vetur. Lið Aþenu, Hamars/Þórs og KR eru öll með 28 stig, lið Tindastóls 26 og Ármann er í fimmta sæti með 24 stig. Andstæðingur Stólastúlkna í kvöld, lið ÍR, hefur aðeins unnið einn leik í vetur og því skyldusigur.

Feykir hafði samband við Helga Margeirs, þjálfara kvennaliðsins, og bað hann að útskýra aðeins stöðuna fyrir lesendum Feykis.

Hann tjáði Feyki að Stólastúlkur væru þegar öruggar í úrslitakeppnina. „Næstu tveir leikir okkar og hvernig aðrir leikir annarra liða í þessum fyrstu fimm sætum fara [skera úr um í hvaða lið Tindastóls endar]. Við munum lenda í 2.-4. sæti trúi ég en engin leið er að segja í hvaða sæti við lendum þar sem svo margir leikir innbyrðis milli þessara leikja eiga eftir að fara fram.“

Það verður því spennandi að fylgjast með vendingum í kvennaboltanum næstu vikuna og síðan úrslitakeppninni í kjölfarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir