Tréiðnaðardeild FNV útskrifar nemendur með nýjustu þekkingu hverju sinni

Óskar Már í spjalli við Iðuna fræðslusetur. SKJÁSKOT
Óskar Már í spjalli við Iðuna fræðslusetur. SKJÁSKOT

Hluti náms í húsasmíði við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki felst í því að byggja timburhús sem unnin eru í samvinnu við fyrirtæki í héraðinu. Samvinnan felst í því að kennarar deildarinnar annast kennslu og stjórna vinnu nemenda en fyrirtækin útvega teikningar og efni og sjá um byggingastjórn og meistaraábyrgð. Aðsókn að skólanum er mikil og er deildin fullskipuð bæði í dagskóla og helgarnámi.

„Þetta heldur okkur á tánum og við útskrifum nemendur sem eru tilbúnir til að fara beint að vinna,“ segir Óskar Már Atlason, deildarstjóri tréiðnaðardeildar FNV. Óskar Már fékk heimsókn frá Iðunni fræðslusetri í síðasta mánuði og sagði þá frá starfsemi deildarinnar og helstu verkefnum sem nemendur þar eru að fást við.

Heimsókninni er gerð skil í myndbandinu sem hér fylgir og er hluti af fræðslumiðlun Iðunnar fræðsluseturs til fagreinanna.

„Með því að gera þetta svona þá erum við í raun alltaf í takt við tímann. Við fáum þessi nýju efni sem verktakarnir eru að vinna með og það nýjasta sem er á markaðnum. Þeir eru oft að prufa eitthvað sjálfir og prófa það hér og við förum á námskeið með þeim. Þetta heldur okkur á tánum, nemendum á tánum og þegar nemendur fara frá okkur þá eru þau tilbúin að fara beint að vinna,“ segir Óskar sem segir námið spennandi fyrir alla sem að því koma og í stöðugri þróun.

Nemendur byggja húsin frá grunni og fá oft að gera innréttingar í þau líka. Óskar segir skipta miklu máli að hafa fjölbreytt og síbreytileg verkefni. „Þau fá svolítið mikið í puttana og það er gaman bæði fyrir nemendur og kennara að taka þátt í þessu. Við fáum aldrei sama efnið og fáum þetta í öllum stærðum og gerðum. Þetta er áskorun fyrir okkur kennara alveg eins og nemendur.“

/Fréttatilkynning frá Iðunni fræðslusetri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir