Vegagerðin eykur vetrarþjónustu vegna breytinga á almenningssamgöngum

Vegagerðin hefur tekið þá ákvörðun að auka vetrarþjónustu á Þverárfjallsvegi  og ætlar að bæta við mokstri á laugardögum og því tekin upp sjö daga þjónusta. Er þetta gert að óskum Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra vegna breytinga á almenningssamgöngum.

Í bréfi sem SSNV sendi til Vegagerðarinnar, dagsett 8. júní 2012, segir að miklar breytingar á skipulagi almenningssamgangna hafi orðið um síðustu áramót þegar landshlutasamtök sveitarfélaga tóku yfir rekstur almenningssamganga á grundvelli samninga við Vegagerðina.

Samkvæmt nýja fyrirkomulaginu eru gömlu sérleyfin á einstakar leiðir aflögð og landshlutasamtök sveitarfélaga eru nú skilgreindir sem sérleyfishafar innan einstakra landssvæða. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) hafa gert samning við vegagerðina um rekstur almenningssamgangna í Húnavatnssýslum og Skagafirði.

Markmiðið með þessum breytingum er að færa skipulag almenningssamgangna nær þörfum íbúa einstakra landssvæða og gera þær að valkosti fyrir íbúa m.t.t vinnu, skólasóknar o.fl.,“ segir Jón Óskar Pétursson framkvæmdarstjóri SSNV í bréfinu.

Flest landshlutasamtök hafa samið við Strætó bs. um að annast skipulag og útboð akstursins. Í samvinnu við Strætó hafa Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og í Eyjafirði og Þingeyjasýslum framkvæmt útboð á leiðinni Reykjavík- Akureyri og voru tilboðin opnuð nú á dögunum.

„Tvær meginbreytingar verða á akstursleiðinni norður þar sem rútan mun aka um Akranes og svo um Þverárfjallsveg í gegnum Sauðárkrók. Eknar verða tvær ferðir á dag 6 daga vikunnar, morgun og kvöldferðir en eingöngu verður um síðdegisferð  að ræða,“ segir í bréfinu en gert er ráð fyrir að rútan verði á Sauðárkróki á laugardögum kl. 17:23 og á Blönduósi kl. 18:01.

„Því er mikilvægt að vetrarþjónusta vegagerðarinnar á Þverárfjallsvegi verði til staðar á þessum tíma,“ segir Jón Óskar loks í bréfi SSNV til Vegagerðarinnar. Eins og kemur fram hér að ofan varð Vegagerðin að ósk SSNV.

 

Fleiri fréttir