Fjölskyldan fagnaði þegar hann lagði fiðluna á hilluna / RÓBERT SMÁRI

Róbert Smári á Jólin heima 2022. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON
Róbert Smári á Jólin heima 2022. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON

Að þessu sinni er það Róbert Smári Gunnarsson sem svarar Tón-lystinni í Feyki. Eins og margir vita þá er Róbert tvíbuarabróðir Inga Sigþórs en þeir bræður koma gjarnan fram saman eða á sömu viðburðum. Þeir eru fæddir árið 2000 sem Róbert kallar besta árganginn, meðal annars vegna þess hversu auðvelt er fyrir hann að reikna út hvað hann er gamall. Róbert segist Skagfirðingur í allar ættir og alinn upp á Króknum en nú er hann búsettur í Reykjavík. „Krókurinn er samt alltaf heim,“ bætir hann við.

„Ég er sonur Elvu Bjarkar og Gunnars Braga. Ef ég hefði fengið tækifæri til að skipta hefði ég ekki gert það því þau eru svo mikið best,“ segir Róbert og heldur áfram: „Röddin er mitt hljóðfæri. Ég átti auðveldara með að ná tökum á henni heldur en einhverju öðru en það þarf þó alltaf að æfa sig. Óþolinmæðin var minn óvinur í hljóðfæraleik. Svo fagnaði fjölskyldan þegar ég hætti að reyna að æfa á fiðlu. Nú langar mig í hljómborð því ég er að reyna telja sjálfum mér trú um að ég sé orðinn þolinmóður.“

Róbert kannast ekki við að hafa unnið nein sérstök afrek á tónlistarsviðinu. „En öll tækifæri hafa sinn sjarma og það getur verið afrek út af fyrir sig að ná að syngja erfið lög og erfiða texta. Stundum er nú ákveðið afrek ef ég man hvar ég á að byrja í lagi og ef ég fer ekki línuvillt í texta. Bara gaman að því samt,“ segir hann áður en hann hefst handa við að svara spurningum Feykis.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Var að koma úr Vínbúðinni (sem við eigum öll saman og rekum, skrýtið?) þar sem ég heyrði óm af lagi sem ég komst að að heitir Laughter in the rain og er með Neil Sedaka. Þægilegt og grípandi lag.

Uppáhalds tónlistartímabil? 80s myndi ég segja ef ég ætti að velja eitt, tískan og tónlistin.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Kántrí, er mikið í því þessa dagana.

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? Alltof erfið spurning. Þau eru mjög mörg. Margt með Vince Gill er í uppáhaldi núna, til dæmis I still believe in you, og svo er Tennessee Whiskey með Chris Stapleton mikið spilað.

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? Ég myndi taka Islands in the stream með Dolly Parton því lagið er gott og hún frábær tónlistarmaður. Svo tæki ég bara einhverja fallega ballöðu með Whitney Houston, væri eflaust eftirminnilegt en ég myndi sennilega hníga niður úr stressi.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var allt mögulegt og alltaf einhver tónlist í gangi. Ég ætla nefna Bryan Adams, Santana, Eagles, Il Divo, Eva Cassidy, Gary Moore, Nina Simone, Diana Krall, Celine Dion, Kenny Loggins og Linda Ronstadt – ég gæti haldið áfram.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Það man ég ekki, en örugglega einhver diskur með Geirmundi og ég hef sennilega keypt hann í Kaupfélaginu.

Hvaða græjur varstu þá með? Sennilega bara Panasonic útvarp með geislaspilara, og svo græjurnar sem voru frammi í stofu (ef mamma var ekki að nota þær).

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Summer of 69 er ofarlega í huga, mamma hlustaði mikið á það. Líka Still got the blues með Gary Moore, við Ingi spiluðum það í 12 ára afmælinu okkar.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Flest með Megasi.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Playlistinn Íslenskt partý, á Spotify, það er Stjórnin, Sálin, SSSól og fleira gott. Ef ekki það, þá er það 80s playlisti.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Eitthvað rólegt, til dæmis Ellu Fitzgerald eða Chet Baker.

Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? Ég hlusta eiginlega ekkert á Bítlana. En lagið Something finnst mér geggjað.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi örugglega með mömmu á tónleika með Bryan Adams, hvar sem er. Svo langar mig alltaf á tónleika með Dolly Parton.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Það var eitthvað íslenskt og gott. Stjórnin var mjög mikið spiluð minnir mig, Ég skemmti mér plöturnar með Friðriki Ómari og Guðrúnu Gunnars, og Sálin hans Jóns míns. Fyrsta sem kemur upp í hugann.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur aldrei langað að vera einhver en ég hef fengið innblástur víða.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Mjöög erfið spurning. Ég bara veit það ekki. En það er ein plata sem ég hlusta oft á frá upphafi til enda, það er platan ,,The First Lady of Song” með Ellu Fitzgerald. Set hana oft á þegar ég þarf að sökkva mér ofan í eitthvað og einbeita mér.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
I Still Believe in You – Vince Gill
When You Say Nothing at All – Alison Krauss & United Station
Tennesee Whiskey – Chris Stapleton
What About Me? – Kenny Rogers, Kim Carnes og James Ingram
Everywhere – Fleetwood Mac
Late Night Talking – Harry Styles

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir