Frábær leikhúsupplifun á Saturday night fever! Kíkt í leikhús

Leikrit NFNV hefur fengið frábærar viðtökur og uppselt alla vikuna en nú hefur verið settar á aukasýningar um helgina og lokasýning á mánudag.
Leikrit NFNV hefur fengið frábærar viðtökur og uppselt alla vikuna en nú hefur verið settar á aukasýningar um helgina og lokasýning á mánudag.

Klukkan er rétt að verða 20:00 á sunnudagskvöldi og Bifröst hefur opnað aftur eftir ansi langan tíma. Virkilega gaman að sjá þær endurbætur sem hafa verið gerðar á húsinu, enn betra hefði þó verið ef það hefði verið gert enn þá meira.

Frumsýningargestir eru sestir í sal og spenntir og fullir tilhlökkunar yfir því að sýningin Saturday Night Fever, í uppfærslu NFNV hefjist, spennustigið og tilhlökkunin er þó sennilega enn þá meiri á bakvið tjöldin. Um frumflutning er að ræða því NFNV eru fyrst á Íslandi til að fá leyfi til að sýna þetta verk.

Sýningin fer af stað og byrjar með góðum krafti og leikgleði sem hélst alla sýninguna út í gegn og skilaði sér vel út í salinn. Óhætt er að segja að þessi sýning spanni allan tilfinningaskalann því hún framkallar bæði gæsahúð að vel fluttum og sannfærandi dramatískum atriðum upp í að vera mjög fyndin og skemmtileg atriði, framkallar bæði kusk í augun og hlátursstrengi í magann.

Leikmyndin er flott sem og leikmunir en það sem flækir kannski aðeins er að hver sena er frekar stutt og eru skiptingar mjög margar, sviðsmenn leysa það verkefni samt mjög vel. Sýningarstjórar ásamt öllum í leikhópnum sjá til þess að sýningin gengur eins og vel smurð vél og englarykið hefur greinilega farið yfir allan hópinn á frumsýningardegi.

Búningar eru flottir og gaman að sjá hvernig litríkir búningar njóta sín, sérstaklega í hópdanssenum. Hár og förðun kemur vel út og óhætt að segja að hárkollunotkun í þessu verki gefi auka hlátur.

Tæknimenn skiluðu sinni vinnu vel. Dansatriðin eru öll virkilega flott og á danshöfundurinn Ívar Helgason og leikhópur hrós skilið. Sigfús Benediktsson og Sigvaldi Helgi Gunnarsson sjá um tónlist, Gunnar Rögnvaldsson og Íris Olga Lúðvíksdóttir gerðu söngtexta og eiga þau öll hrós skilið fyrir þeirra vinnu sem og leikarar fyrir frábæran flutning. 
Leikstjórarnir Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Eysteinn Ívar Guðbrandsson eiga mikið hrós skilið fyrir sína vinnu sem þau skila virkilega vel.

Leikhópurinn er mjög stór en um 50 manns koma að sýningunni og þar af 30 sem eru að leika. Allir leikarar skiluðu sínum hlutverkum vel og eiga skilið stórt hrós fyrir góða frammistöðu, voru flest öll skýrmælt og pössuðu að tala ekki ofan í hlátur í sal. Í einstaka tilfellum hefði mátt tala aðeins hægar og hærra og alltaf ber að varast (lesist bannað er) að ná augnsambandi við áhorfendur í sal.

Það er ansi erfitt að fara pikka út leikara í svona stórum og glæsilegum hópi, vitandi það að allir í hópnum eru búnir að leggja á sig eiginlega bara ólöglega mikla vinnu og tíma þar sem hann fékk aðeins átta æfingadaga í Bifröst, sem eru mjög fáir dagar í ferðalagi sem æfingatímabil er. Á þessum sömu fáu dögum er líka verið að græja alla vinnunna við leikmynd, lýsingu og hljóð, skiptingar og margt fleira sem þarf að gerast til að sýningin verði að raunveruleika og eiginlega bara áhugavert og magnað að þetta hafi allt saman tekist og það svona sjúllað vel.

Ég verð þó að nefna að Ísak, Emelíana Lillý, Flóra Rún, Ingi Sigþór, Óskar Aron, Viktor Darri, Sigurður Snær, Íris Helga, Embla Ingibjörg, Jón Daníel skiluðu sínum hlutverkum sérstaklega vel í leik og nokkur þeirra í söng líka. Hrafnhildur Ýr, Magnea Petra, Sandra Björk og Marsilía voru áberandi geislandi af leikgleði í sínum hlutverkum líka.

Að lokum vil ég óska öllum sem koma að þessari sýningu innilega til hamingju með fallegu, glæsilegu og fyndnu sýninguna ykkar sem hefur verið mikið í lagt bæði innan sviðs sem utan og mæli endalaust með því að allir panti sér miða strax í síma 833-6554.
Takk fyrir frábæra skemmtun!

/Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir