Hækkun sjávarborðs – verulegt áhyggjuefni

Djúpar lægðir dundu á landinu kringum áramótin með hárri sjávarstöðu og allnokkru tjóni í og við nokkrar sjávarbyggðir. Þessi tjón, ásamt mörgum öðrum undanfarin ár, hljóta að vekja fólk til aukinnar vitundur um hærri sjávarstöðu og auknar líkur á enn meira tjóni í komandi framtíð. Því miður er ekkert í þeim efnum sem getur batnað. Hjá þjóð sem býr á eyju með mörgum tengingum við sjóinn hefur verið furðulítil umræða um þessi mál.

Sjávarborð hefur hækkað um 21-24 sm á síðastliðnum 140 árum og á þeim tíma með sívaxandi hraða. Nú um stundir hækkar sjávarborð um 3-4 mm á ári og sumar spár gera ráð fyrir að hækkun sjávar verði að meðaltali meira en 5 mm á ári næstu 20 árin. Sjávarstrendur landsins bera þess líka víða merki með miklu og auknu sjávarrofi. Skagafjörður hefur ekki farið varhluta af þessu og hefur Ægir konungur verið duglegur síðustu árin að mölva og berja af landinu sem mest hann getur. Ef skoðuð eru u.þ.b. 20 ára gömul gögn og þau borin saman við nýleg gögn sjást víða miklar breytingar.

Sjávarmölin við Miklavatn í Fljótum hefur flust innar svo nemur tugum metra jafnvel mest um 60-70 metra. Haganesið vestan við Miklavatn hefur styst um allt að fimm metra. Þar sem akvegurinn liggur næst sjónum fyrir neðan Móskóga á Bökkum hefur ströndin færst innar um allt að fimm metra og er vegurinn kominn í stórhættu. Lónsmölin í Sléttuhlíð hefur færst innar á stórum köflum um 20-40 metra. Norðausturhorn Þórðarhöfða hefur tapað hátt í 10 metrum. Bæjarmölin við Höfðavatn hefur á sumum stöðum færst innar sem nemur 10-30 metrum.

Stór hluti Garðssands er nánast alltaf undir vatni og eru nýlegar uppgræðslur að fljóta á haf út. Nánast er hætt að bæta í fjöruna á Borgarsandi þrátt fyrir gríðarlegan framburð úr Héraðsvötnum. Reykjadiskur á Reykjaströnd hefur á kafla styst um allt að 5 metra. Ströndin vestan við Hraun á Skaga hefur á einum stað færst innar um allt að 10 metra. Þessi framansögðu dæmi eru þar sem mikil breyting hefur orðið á ströndinni en til allrar hamingju hefur megnið af ströndinni ekki breyst á jafn dramatískan hátt enda hér um örstuttan tíma að ræða. Heggur þó víðast í hana og hægt að spyrja hvernig þetta verður eftir önnur 20 ár?

Sumar sjávarstrendur verða jafnvel óþekkjanlegar og fleiri byggðir sem liggja lágt í meiri hættu en nú er og erfiðara verður að verja þær. Sést það vel á Sauðárkróki þar sem himinhár sjávarvarnargarður er kominn fram með byggðinni, eins heillandi og hann er eða hitt þó heldur. Ef fram heldur sem horfir er ólíklegt að hann muni duga til langrar framtíðar og reyndar öruggt að hann gerir það ekki. Þrátt fyrir hækkun sjávarmáls er samt sem áður enn skipulögð mannvirki nánast út í sjó sem leiðir bara til aukinna sjávarvarna í komandi framtíð. Er það skynsamlegt?

Hjalti Þórðarson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir