Leeds United er eins og íslenska krónan, upp og niður :: Liðið mitt Hilmar Þór Ívarsson

Hilmar og Didda í góðum gír fyrir utan Elland Road. Bak við þau er stytta af William John Bremner (9. desember 1942 – 7. desember 1997) sem var skoskur atvinnumaður í knattspyrnu og knattspyrnustjóri. Hann lék með Leeds United frá 1959 til 1976, og var fyrirliði frá 1965, á einu farsælasta tímabili í sögu félagsins. Aðsendar myndir.
Hilmar og Didda í góðum gír fyrir utan Elland Road. Bak við þau er stytta af William John Bremner (9. desember 1942 – 7. desember 1997) sem var skoskur atvinnumaður í knattspyrnu og knattspyrnustjóri. Hann lék með Leeds United frá 1959 til 1976, og var fyrirliði frá 1965, á einu farsælasta tímabili í sögu félagsins. Aðsendar myndir.

Skorað var á framleiðslustjóra rækjuvinnslu Dögunar á Sauðárkróki Hilmar Þór Ívarsson að svara spurningum í Liðið mitt hér í Feyki sem hann gerir með sóma. Hilmar er kvæntur Sigurlaugu Sævarsdóttur, Diddu frá Húsavík, en þar eru þau bæði fædd og uppalin. Leeds er uppáhaldslið Hilmars í Enska boltanum og hefur verið lengi.

Þau Hilmar og Didda bjuggu á Húsavík til ársins 2007 þegar þau ákváðu að flytja á Krókinn og ætluðu að vera þar í eitt ár eða svo. „Enn erum við ekki farin til baka og ekkert í kortunum sem bendir til þess að svo verði, enda gott að búa á Króknum. Í sinni fyrstu vinnu hér á Krók fór Didda mín að vinna með svo skemmtilegu fólki að hún harðneitaði að fara til baka,“ segir Hilmar en til upplýsinga var vinnan sú arna hjá Nýprent sem einmitt gefur út Feyki. Þau hjónin eiga fjögur börn og tvö barnabörn.

„Leeds er mitt lið í Enska boltanum og hefur verið svo síðan ég byrjaði í skóla, það er nú ekki nema hálf öld síðan. Það var örugglega skólabróðir minn og nágranni Jón Ólafur Sigfússon á Húsavík sem benti mér á að Leeds væri liðið og forðaði mér frá því að halda með Man. U. og fyrir það er ég honum ævinlega þakklátur. Það var mikil stemming fyrir Leeds á Húsavík í kringum 1970 og er reyndar enn. Stuðningsmennirnir eru þó flestir farnir að grána í vöngum en það er bara virðulegra. Þess má geta að Einar Óla, ljósmyndari með meiru (sá sem Albert Guðmunds. lúðraði um árið), var mikill Leedsari. Foreldrar hans ráku hverfisverslun með miklum myndarbrag á Húsavík á þessum árum og Einar var oft til í að gauka að okkur töggu eða annarri mæru ef við héldum með Leeds. Það styrkti menn í trúnni.

Útlitið hjá Leeds er ekki gott þessa daga og sú vonarglæta um betri tíð sem Bielsa færði okkur er að fjara út en við þolum það í eitt skiptið enn. Staða liðsins er með öllu óásættanleg þar sem verið er að berjast við falldrauginn og alls ekki útséð með hvernig það endar.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði?

Hilmar og Agnar með Norman Hunter fyrir utan Elland Road.

-Þegar ég var að vinna á Húsavík var endalaust verið að rífast um enska boltann og voru þá oft þung skref í vinnu á mánudegi, já og mættu menn jafnvel ekki ef úrslit helgarinnar voru óhagstæð. Það voru góðir tímar þegar vel gekk en ferlegir þegar illa gekk.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar?
-Það nefna allir Leedsarar, sem eru eldri en tvævetur, Billy Bremner en þeir eru reyndar margir sem koma til greina.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu?
-Ég hef margoft farið á Elland Road til að sjá Leeds spila og á vonandi eftir að fara oft til viðbótar. Af öllum ólöstuðum sem ég hef séð spila fyrir Leeds á Elland Road var skemmtilegast að sjá Harry Kewell þegar hann var upp á sitt besta. Það fór kliður um áhorfendur um leið og hann fékk boltann og áhorfendur risu úr sætum þegar hann tók á rás fram völlinn. Sem dæmi um getu Harry Kewell á þeim tíma þá sólaði hann Rio Ferdinand bókstaflega upp úr skónum og fór svo illa með Ryan Giggs aftur og aftur í sama leiknum gegn Man. U. að hann hálf ruglaðist og endaði uppi í rúmi hjá konu bróður síns en ekki sinni eigin.

Ég var líka á Elland R. þegar Roy Keane ætlaði að brjóta á Alf Inge Haaland en honum fórst það ekki betur en svo að hann slasaði sjálfan sig og lá flatur á jörðinni. Haaland gerði þau afdrifaríku mistök að beygja sig yfir R.K. og senda honum einhverja pillu yfir athæfinu. Að sjálfsögðu vann Leeds leikinn 1 – 0. Roy Keane hefndi sín síðar þegar Haaland lék með M. City með vísvitandi grófu broti sem batt enda á feril Haaland eins og frægt er og komst upp með það. Er Roy Keane harðjaxl eða óþokki? Dæmi hver fyrir sig!

Við hjónin skruppum til Englands þar sem ég fór á tvo leiki með Leeds gegn Man. U. Annar á Old Trafford en hinn á Elland Road. Það gekk vel á Trafford en Elland Road klikkaði. Mikill hiti var í áhorfendum eins og alltaf þegar þessi lið mætast og þótti mörgum nóg um.

Ég hef langoftast farið til að sjá leiki á milli Leeds og Man. U. Því miður hafa úrslit leikjanna ekki verið alveg nógu hagstæð að undanförnu en þetta eru alltaf skemmtilegar viðureignir.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu?
-Það er til fullt af hátísku varningi og annarri vöru á heimilinu sem keypt hefur verið í megastore á Elland Road enda fæst allt þar sem þarf til daglegra nota nema kannski spariskór og matvara.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið?

Auðvitað er fyrsta barnabarnið klætt í rétta búninginn.

-Ég á eina dóttur sem fékk bara einn búning með uppáhalds liðinu sínu frá mér. Held reyndar að hún hafi bara verið að stríða pabba sínum með að halda með þessu liði, ef lið skyldi kalla.

Drengirnir þrír voru mun lánsamari og hafa allir fengið marga búninga frá mér og halda allir með Leeds. Þeir hafa allir farið á Elland og eru grjótharðir stuðningsmenn Leeds. Þess ber að geta að jólasveininn var líka duglegur að gefa þeim Leeds dót í skóinn sem styrkti þá í trúnni.

Didda mín er Liverpool en ekki eldheit enda hafði hún meiri áhuga á að taka Beatla bössinn en að fara og skoða Anfield þegar við vorum í Liverpool í byrjun febrúar.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag?

-Ég hef aldrei skipt um félag og mun ekki gera það. Skiptir engu máli í hvaða deild þeir eru. Eftir að hafa verið mikið í Leeds og þá oft innan um grjótharða stuðningsmenn, þá er það alveg klárt að við Leedsarar höldum aldrei með Man. U. Það má hvaða lið sem er vinna titilinn nema þeir, meira að segja Liverpool, fyrst það er orðið styttra síðan þeir urðu meistarar en Leeds. Það var alltaf gott að geta notað það á Liverpool menn að það væri svo langt síðan þeir hefðu unnið deildina að þeir væru ekki marktækir í umræðunni en svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Uppáhalds málsháttur?
-Fjarlægðin gerir fjöllin blá og langt til Húsavíkur.

Einhver góð saga úr boltanum?
-Það er alltaf gaman að fara á völlinn í Englandi sama hvar er, þó er fyrsta ferðin ógleymanleg í mínu tilviki og þá ekki bara leikurinn sjálfur heldur að kynnast öllu því sem gengur á í kringum þessa leiki. Ég var í fríi með Diddu minni í Glasgow seint í nóv. 1993 og vissi að Leeds átti heimaleik á laugardegi þann 27 nóv., gegn Swindon. Ég tók lestina frá Glasgow til Leeds á laugardagsmorgni og treysti á að ég myndi fá miða á völlinn. Þetta er áður en Internetið og farsímarnir komu til og því miklu erfiðara að fá allar upplýsingar en er í dag.

Pabbinn og strákaranir með Mel Sterland.
Sterland var meistari með Leeds á sínum tíma.

Ég fór því einn af stað í bítið og leist ekki á blikuna þegar snjóaði og snjóaði á leiðinni, vissi ekki hvar ég átti að skipta um lest eða neitt slíkt, sá strák sem var í Leeds búningi og hengdi mig á hann, sá lóðsaði mig í gegnum þetta allt. Strákurinn vildi ekki tala við mig í fyrstu en þegar ég sagðist halda með Leeds, væri frá Íslandi og ætlaði að fara á Elland Road breyttist allt. Hann vísaði mér til sætis hjá bróður sínum og sagði mér að bíða því hann ætlaði að kaupa bjór handa mér. Annað væri ekki hægt þar sem ég væri kominn alla leið frá Íslandi til að fara á leik með Leeds. Á lestarstöðinni í Leeds var allt fullt af Leedsurum sem voru að fara á völlinn.

Ég fór með þremur Leeds áhangendum í leigubíl frá lestarstöðinni á Elland Road sem ég hef hvorki séð fyrr né síðar. Þetta voru menn sem bjuggu í borginni og voru búnir að drekka í sig alla þá visku um fótbolta sem hægt er á pöbbanum fyrir leik. Þar sá ég að fyrir öllum er þetta ekki bara leikur heldur einhvers konar stríð. Leeds var nýbúið að gefa Man. U. Cantona þegar þetta var (mestu mistök í sögu klúbbsins) og ég sagði við þá að það væru algjör mistök að mínu mati, hann væri alltof góður og myndi bara gera þá betri eins og allir vissu reyndar. Ég hefði betur sleppt því að segja Cantona góðan og Man. U. gott lið því þeir voru alvarlega að spá í að henda mér úr leigubílnum. Sem betur fer slepptu þeir því en yrtu ekki á mig eftir þetta, áður höfðu þeir gert mér grein fyrir því, í eitt skipti fyrir öll, að M.U. er ekki gott lið. Eins og þeir voru ánægðir í upphafi með að einhver frá norðurhjara veraldar væri kominn til að sjá þeirra lið.

Þegar komið var á Elland Road var fullt af Leedsurum út um allt, þá vissi ég að hingað kæmi maður aftur. Félaginn sem hafði lóðsað mig í gegnum lestirnar keypti fyrir mig miða. Þetta var síðasta tímabilið sem mátti standa fyrir aftan annað markið en þar voru hörðustu áhangendurnir. Því miður voru bara tveir miðar eftir sem bræðurnir notuðu og ég þurfti því að fara í stúku með sætum. Ég rétt missti því af þeirri reynslu en sat reyndar steinsnar frá varamannabekknum og Howard Wilkinsson, sem þá var stjóri og naut enn mikillar hilli á Elland Road, þrátt fyrir að hafa selt/gefið Cantona til Man. U. Það átti eftir að breytast.

Farið yfir stöðuna með Andrea Radrizzani, eiganda Leeds.

Ég komst inn á völlinn fimm mínútum fyrir leik. Leeds vann leikinn 3 – 0 enda ríkjandi meistarar á þeim tíma, valinn maður í hverri stöðu og var leikurinn hin besta skemmtun. Eftir leik hentist ég í búðina, verslaði í búið og nauðsynlegan varning, gekk síðan beint á lestarstöðina. Ég þurfti að skipta tvisvar um lest áður en ég kom til Edinborgar og í seinni lestinni voru 30 - 40 hardcore Newcastle áhangendur í misjöfnu ástandi. Þá voru góð ráð dýr, ég með Leeds pokana úr búðinni. Ég náði að troða pokunum inn á mig og þetta slapp til. Newcastle áhangendurnir voru reyndar léttir í lund því þeirra maður, sem þá var að koma fram á sjónarsviðið sem stórstjarna Asley Cole, hafði skorað eitthvað af mörkum í leiknum sem þeir voru að koma af. Ég náði að endingu síðustu lest frá Edinborg til Glasgow kl: 11 um kvöldið. Kom á hótelið eitthvað upp úr miðnætti.

Þegar ég kom á hótelið eftir 18 klst. óvissuferð, sá ég að það var þess virði að leggja mikið á sig fyrir leik og hef því eins og áður sagði oft farið á leiki í Englandi. Rúsínan í pylsuendanum var svo að Didda mín hafði farið á kostum í búðunum í Glasgow og grætt meira en ég hafði eytt í þessa vitleysu sem leikurinn var að hennar sögn. Þannig að nú kemur hún oft með mér til Leeds til að halda kostnaðinum niðri.

Annars er því við að bæta, það er orðið mun auðveldara að fara á völlinn í norður Englandi heldur en það var fyrir 15 árum eða svo, þar sem framboð á flugi til Manchester frá Íslandi er mikið yfir vetramánuðina og svo er Play farið að fljúga beint á Liverpool. Þetta eru um margt flottar borgir og mikil saga eins og t.d. í Liverpool sem var ein stærsta höfn í heimi í upphafi iðnbyltingar og þetta svæði þarna norðurfrá var reyndar vagga iðnbyltingarinnar. Þetta eru ekki bara fótbolta borgir.

Spurning frá Elvari Erni Birgissyni:
-Nær Leeds að stimpla sig inn sem staðbundið úrvalsdeildarfélag eða verður þetta endalaus botnbarátta og flakk á milli deilda næstu árin?

Svar: -Leeds United er eins og íslenska krónan, upp og niður. Ég hef ekki heyrt annað en að íslenska krónan sé best, þá hlýtur Leeds að vera best líka. Það er eitthvað í stöðugleikann svo spurningunni sé svarað.

Annars er þetta óþverra spurning hjá Elvari, ég hélt að hann ætti þetta ekki til. Ég myndi t.d. aldrei fara að velta honum upp úr 7 – 0 tapi hans manna gegn Liverpool á dögunum. Aldrei!

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum?
-
Jón Örn Stefánsson.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Loksins fór að rofa til hjá ykkur Liverpool mönnum þegar þið unnuð Man. U. 7 – 0, en nú virðist allt vera komið í sama farið aftur og menn farnir að tala um að skipta um kall í brúnni. Spurningin er því eftirfarandi:

Er ekki bara best að fá Roy Evans aftur? Eitthvað gamalt og gott.

Áður birst í 12. tbl. Feykis 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir