Miðfjarðará enn í öðru sæti
Laxveiði sumarsins í Miðfjarðará er nú komin í 1570 laxa og er hún enn í öðru sæti yfir aflahæstu ár landsins samkvæmt upplýsingum á angling.is, vef Landssambands veiðifélaga. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst þar 1996 laxar þannig að veiðin er enn talsvert dræmari en í fyrra. Sömu sögu er að segja um allar ár á svæðinu, utan Laxá á Ásum, sem er í ellefta sæti á listanum, en þar hafa veiðst 438 laxar miðað við 291 í fyrra. Að vísu ber að geta þess að nú er veitt á fjórar stangir í stað tveggja í fyrra. Blanda hefur gefið 913 laxa og er í fimmta sæti en sambærilegar tölur í fyrra voru 1681 lax.
Aðrar húnvetnskar ár á listanum eru Víðidalsá með 372 laxa, Vatnsdalsá með 267, Hrútafjarðará og Síká með 80 og Svartá með 3 laxa.