Norðanátt óskar eftir einhverjum til að taka við vefnum

Þann 14. júní næstkomandi verða tíu ár liðin frá því að Norðanátt.is fór í loftið. Aldís Olga Jóhannesdóttir og Kristín Guðmundsdóttir opnuðu vefmiðilinn eftir að hafa lesið í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2004 að þörf væri á að markaðssetja Húnaþing vestra betur og stofna vefsíðu fyrir svæðið. Nú er svo komið að þær vilja afhenda keflið til annarra sem áhuga hafa að halda Norðanáttinni gangandi.

„Á vefnum hafa verið fluttar fréttir af viðburðum, afrekum fólks, birtar tilkynningar, viðtöl, pistlar, vísur, teikningar og fleira. Öll sú vinna sem hefur farið fram í tengslum við Norðanátt hefur verið unnin í sjálfboðavinnu og í frítíma umsjónarkvenna. Allt var þetta gert með samfélagsmarkmið að leiðarljósi, að koma á framfæri því góða og jákvæða sem á sér stað á svæðinu og vera einhvers konar upplýsingagátt fyrir íbúa svæðisins og aðra áhugasama.

Nú er svo komið að eftir tíu ára sjálfboðavinnu er kominn tími á skipti, að afhenda keflið til þess sem hefur metnað fyrir því að halda starfinu áfram með aðstoð samfélagsins hér. Norðanátt hefur átt dygga lesendur og góða velunnara og það væri einstaklega ánægjulegt að sjá þetta starf halda áfram. Ef einhver frábær gæti hugsað sér að halda Norðanáttinni áfram og nýta sér núverandi vef, þá má viðkomandi endilega senda póst á aldis@nordanatt.is,“ segir á Norðanáttinni.

Feykir tekur undir það að vilja sjá vefinn halda áfram enda stórgóður og metnaðarfullur. Það er ómetanlegt fyrir hvert byggðarlag að hafa vef sem flytur fréttir af svæðinu. Feykir hefur átt gott samstarf við Norðanátt og vonar það það verði svo um ókomna tíð.

Fleiri fréttir