Óánægja með reglugerðardrög matvælaráðherra

Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu gerir athugasemdir við drög matvælaráðherra að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda í síðasta mánuði. 
 
Athugasemdir frá Félagi sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu má lesa hér:
 
Í Austur-Húnavatnssýslu er sauðfjárrækt og afleidd störf landbúnaðar gríðarstór hluti atvinnulífs. Ef þessi reglugerð tekur gildi, mun hún kollvarpa sauðfjárbúskap í núverandi mynd á öllu landinu. Það hefur í för með sér umfangsmikla byggðaröskun og tap á menningarlegum gildum.

 

Bændur eru vörslumenn lands og hafa verið frumkvöðlar og drifkraftar í uppgræðslu lands um áratugi, til að mynda í verkefninu Bændur græða landið og mörgum fleiri landbótaverkefnum. Sauðfé í landinu hefur fækkað gríðarlega á undanförnum áratugum og beitartími í afréttum hefur styttst. Úttektir sýna víðast hvar að ástand lands hefur tekið mikilum framförum á undanförnum áratugum. Því hljómar það undarlega í eyrum sauðfjárbænda að með þessari reglugerð séu þeir krafðir um að hætta að nýta land í ákveðnu ástandi og eins krafðir um að bæta land þó svo ekki sé sýnt fram á að þeirra nýting, eins og hún er í dag, raski ástandi landsins.

Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu hlýtur að eiga að snúast um einmitt það að við skilum landinu af okkur, annað hvort í jafn góðu ástandi eða betra, en við tókum við því. Reglugerðin virðist ekki snúast um það, heldur er talað um vistgetu þar sem engin leið er að skilgreina viðmiðunarsvæði, hvorki í tíma né rúmi. Hvergi er talað um mögulega getu lands til að framfleyta búfé og þ.a.l. engin leið fyrir rétthafa beitar að meta hvort þeirra nýting sé lítil, hófleg eða mikil. Í því samhengi viljum við benda á að margar rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif hóflegrar beitar á framvindu lands.
Það kemur okkur verulega á óvart hversu mörg svæði sem nú þegar eru nýtt til beitar og hafa verið talin vel gróin fram til þessa, ná ekki að uppfylla strangar kröfur reglugerðarinnar um hlutföll í réttum ástandsflokkum þegar vefsjá sem fylgir reglugerðinni er skoðuð. Víða háttar einnig þannig til að vel grónir dalir skera sig inn í brött og há fjöll sem engin leið er að skilja frá beitarsvæðinu.
Í reglugerðinni er gert ráð fyrir því að Land og skógur eigi að hafa eftirlit með ástandi lands, taka ákvarðanir um þörf landbótaáætlana, leiðbeina rétthafa lands um gerð áætlunar og taka svo út framkvæmd hennar. Þetta getur ekki samræmst íslenskri stjórnsýslu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir