Vantar leiðir til að fullvinna afurðir heima í héraði

Frá stórfundi íbúa í Miðgarði 3. september sl. Mynd af Facebooksíðu SSNV
Frá stórfundi íbúa í Miðgarði 3. september sl. Mynd af Facebooksíðu SSNV

Á stórfundi íbúa á Norðurlandi vestra sem haldinn var í Miðgarði í síðustu viku í tengslum við vinnu við gerð nýrrar sóknaráætlunar var lögð mikil áhersla á að finna þurfi leiðir til að fulllnýta afurðir heima í héraði. Þetta var síðasti fundurinn sem Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, boða til fyrir gerð nýrrar sóknaráætlunar sem unnið hefur verið að frá því í vor. Var fundurinn vel sóttur og þar komu fram margar góðar hugmyndir um framtíðarsýn landshlutans. Fjallað var um fundinn og rætt við Unni Valborgu Hilmarsdóttur, framkvæmdastjóra SSNV í frétt á vef RÚV .

Unnur Valborg segir að mikill hugur sé í fólki og hafi menningar- og menntamál, atvinnuþróun og nýsköpun verið ofarlega á baugi en rauði þráðurinn í umræðunum hafi verið hvernig hægt væri að fullnýta afurðir heima í héraði. „Norðurland vestra er gríðarlega stórt landbúnaðarhérað og hér er mikil frumframleiðsla, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi en okkur vantar kannski frekari leiðir til þess að fullvinna þessar afurði hér og þannig skilja eftir sem mestan virðisauka á svæðinu,“ segir Unnur. Þar megi til dæmis nefna leiðir til að nýta betur ull og annað sem til fellur af sauðfé. Umhverfismálin séu meira áberandi í sóknaráætlun nú en áður sem rími vel við fullnýtingu afurða. „Partur af því sé að mötuneyti skóla á svæðinu nýti betur afurðir úr héraði með því að kaupa í meiri mæli beint frá býli eða beint úr bát. Þá þurfi að auðvelda bændum að vinna kjöt heima. Á Skagaströnd sé vörusmiðja með vottað vinnslurými sem bændur geti nýtt sér. Það geri þeir í auknum mæli og þurfi því ekki að koma sér upp vottuðu vinnslurými heima með tilheyrandi kostnaði,“ segir í frétt Ríkisútvarpsins.

Stefnt er að því að sóknaráætlun verði tilbúin í byrjun október en þá verður hún birt á vef samtakanna og fólki gefinn kostur á að gera athugasemdir. „Við lítum á það þannig að þeir sem eru helstu sérfræðingarnir í bæði stöðu svæðisins og tækifærum þess séu íbúar svo samráðið er lykilþáttur í þessari vinnu,“ segir Unnur. Hún segir mikilvægt að sóknaráætlunin taki á þessum mikilvægu þáttum er varða landshlutann því úthlutun styrkja taki mið af henni. Til dæmis þurfi þau verkefni sem fái styrk úr uppbyggingarsjóði ásamt áhersluverkefnum að hafa vísan í sóknaráætlun.

Á fundinum var einnig unnið að sviðsmyndagreiningu fyrir atvinnulífið á svæðinu en þar er unnið lengra fram í tímann heldur en í sóknaráætluninni eða til ársins 2040. Í henni er skoðað í hvaða mögulegar áttir atvinnulíf á Norðurlandi vestra geti þróast, og dregin upp bæði versta mögulega staða og sú besta. Greininguna sé svo hægt að nota sem viðmið næstu ár og hægt að „rétta kúrsinn ef við sjáum að við erum að fara í átt að verri útkomunni,“ segir Unnur. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir