Vegið að skipulagsvaldinu

Á seinasta fundi byggðarráðs Húnaþings vestra, sem haldin var á dögunum, var tekin fyrir umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi, en mál þetta var áður á dagskrá þann 15. maí en þá var sveitarstjóra falið að afla frekari upplýsinga áður en metið yrði hvort umsögn verði veitt.

Byggðarráð telur að með frumvarpinu sé skapað hættulegt fordæmi og lagði fram eftirfarandi tillögu að umsögn og fékk sveitarstjóra í hendur að koma henni á framfæri við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis:

„Einn af hornsteinum sjálfsstjórnarvalds sveitarfélaga er skipulagsvaldið. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram er að mati byggðarráðs Húnaþings vestra vegið alvarlega að því valdi. Með frumvarpinu eru umráð yfir skipulags- og byggingamálum við tilteknar aðstæður færð frá sveitarfélagi til Skipulagsstofnunar að fenginni beiðni frá Vinnumálastofnun. Sveitarfélög eru þar með orðin umsagnaraðilar í slíkum málum. Að mati byggðarráðs er með frumvarpinu skapað hættulegt fordæmi til framtíðar í skipulags- og byggingamálum. Sveitarfélögum er engu að síður fært það hlutverk að tilkynna nærliggjandi lóðarhöfum um breytingarnar sem er fráleitt miðað við það veigalitla hlutverk sem þeim er ætlað í ferlinu að öðru leyti.

Auk framangreindra annmarka bendir byggðarráð á að með frumvarpinu eru starfsmenn skipulags- og byggingafulltrúa hjá sveitarfélögunum, ásamt starfsmönnum eldvarnaeftirlits og heilbrigðiseftirlits settir í þá stöðu að vinna gegn þeim reglum sem í gildi hafa verið um langt árabil. Þannig er þeim gert að vinna gegn eigin vitneskju og samvisku með því að taka ábyrgð á að setja fólk í afar viðkvæmri stöðu í húsnæði sem mögulega er ófullnægjandi.

Byggðarráð gerir á engan hátt lítið úr þeirri erfiðu stöðu sem uppi er varðandi húsnæðismál flóttamanna og hælisleitenda. Lausn vandans getur þó ekki falist í að safna þessum viðkvæma hópi fólks saman í húsnæði sem fáir létu bjóða sér og um leið brjóta á grundvallarrétti sveitarfélaga til að fara með skipulagsvald.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir