Bjarni Jóns berst fyrir bundnu slitlagi á Blönduósflugvöll
Húnahornið greinir frá því að Blönduósflugvöll hafi borið á góma á Alþingi í gær. Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi minnti þá á mikilvægi vallarins fyrir sjúkraflug og benti á að ekki væri búið að ljúka því verki sem byrjað var á til að hann geti gegnt öryggishlutverki sínu fyrir svæðið. Vísaði Bjarni til þess að ljúka þyrfti lagningu bundins slitlags á völlinn og að slík framkvæmd gæti kostað 40-70 milljónir króna. Skoraði hann á samgönguyfirvöld að sjá til þess að það yrði gert.
Í fréttinni segir: Í ræðu sinni sagði Bjarni að tryggt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu skipti miklu máli fyrir búsetuöryggi. Víða um land hefði margvíslegri þjónustu verið hagrætt í burtu, eins og veigamikilli bráðaþjónustu. „Því miður er það svo að aðstöðu og búnaði á flugvöllum til sjúkraflugs hefur verið illa við haldið á mikilvægum stöðum. Það er full ástæða til að ræða hér enn og aftur aðstöðu til sjúkraflugs á Blönduósflugvelli,“ sagði Bjarni.
Í máli hans kom fram að það væri ekki langt síðan aðflugsljós hefðu verið lögð og komið upp GPS-kerfi til að auðvelda flug um völlinn og væri það vel. En til að klára verkið, svo Blönduósflugvöllur geti gegnt öryggishlutverki sínu fyrir svæðið, þyrfti að ljúka lagningu bundins slitlags.“
Nánar má lesa um málið á Húnahorninu góða >