Bjarni Jónsson og Lilja Rafney berjast um fyrsta sætið hjá VG í Norðvesturkjördæmi

Á myndinni eru í þessari röð: Bjarni Jónsson, Lárus Ástmar Hannesson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, María Hildur Maack, Nanný Arna Guðmundsdóttir, Sigríður Gísladóttir, Þóra Magnea Magnúsdóttir og Þóra Margrét Lúthersdóttir. Mynd aðsend.
Á myndinni eru í þessari röð: Bjarni Jónsson, Lárus Ástmar Hannesson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, María Hildur Maack, Nanný Arna Guðmundsdóttir, Sigríður Gísladóttir, Þóra Magnea Magnúsdóttir og Þóra Margrét Lúthersdóttir. Mynd aðsend.

Framboðsfrestur Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi er runninn út og munu átta gefa kost á sér í fimm efstu sætin í Norðvesturkjördæmi, í rafrænu forvali sem haldið verður 23. – 25. apríl 2021. Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi í Skagafirði, sækist eftir 1. sæti líkt og Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður frá Suðureyri.

Þóra Margrét Lúthersdóttir, sauðfjár- og skógarbóndi Forsæludal Austur-Húnavatnssýslu, býður sig fram í  2.-3. sæti sem og nafna hennar Þóra Magnea Magnúsdóttir, kennari á Akranesi en Sigríður Gísladóttir, dýralæknir Ísafirði býður sig fram í 2.-4. sæti.

Þrjú bjóða sig fram í 3.-5. sæti, þau Lárus Ástmar Hannesson, grunnskólakennari og bæjarfulltrúi Stykkishólmi, María Hildur Maack, umhverfisstjóri Reykhólahreppi og Nanný Arna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi Ísafirði.

Kosning hefst á miðnætti 23. apríl og stendur til kl. 17.00 þann 25. apríl og verður kosið um fimm efstu sæti á listanum, þar af bindandi í efstu þrjú en í samræmi við forvalsreglur VG. Atkvæðisbær í forvalinu eru öll þau sem skráð eru í hreyfinguna í kjördæminu tíu dögum fyrir kjörfund.

Tveir rafrænir framboðsfundir verða haldnir og opnir öllum:
10. apríl kl. 12.00
19. apríl kl. 20.00.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, stýrir fundunum en hlekk inn á þá verður hægt að nálgast á  vg.is og á samfélagsmiðlum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir