Breytingar á staðgreiðslu um áramót

Síðari áfangi breytinga á tekjuskatti einstaklinga tekur gildi nú um áramótin. Felur hann í sér lækkun á grunnþrepi tekjuskatts um 3,60 prósentustig og hækkun á miðþrepi tekjuskatts um 0,75 prósentustig. Nýju skattprósenturnar verða því 17% í grunnþrepi og 23,5% í miðþrepi. Við prósenturnar bætist síðan útsvarsprósenta sveitarfélaga.

Samkvæmt lögum um tekjuskatt skal fjárhæð persónuafsláttar taka breytingu út frá margfeldi breytingar vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði og hlutfalls nýrrar grunnprósentu tekjuskatts einstaklinga af grunnprósentu ársins áður, að útsvarsprósentu meðtalinni. Þá skulu þrepamörk tekjuskatts vera uppreiknuð í hlutfalli við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.

Á grundvelli þess eru skatthlutföll og þrepamörk árið 2021 eftirfarandi:

Prósenta í 1. þrepi (af tekjum 0 - 349.018 kr.): 31,45% (þar af 14,45% útsvar).
Prósenta í 2. þrepi (af tekjum 349.019 - 979.847 kr.): 37,95% (þar af 14,45% útsvar).
Prósenta í 3. þrepi (af tekjum yfir 979.847 kr.): 46,25% (þar af 14,45% útsvar).
Skatthlutfall barna (fædd 2006 eða síðar) af tekjum umfram 180.000 kr. á ári. 6%
Persónuafsláttur á mánuði kr. 50.792 eða 609.509 á ári.

Meðalútsvar á árinu 2021 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 14,45% sem er hækkun um 0,01 prósentustig frá fyrra ári. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðalútsvarshlutfallið. Af 69 sveitarfélögum munu 53 leggja á hámarksútsvar. Fjögur sveitarfélög munu leggja á lágmarksútsvar.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða 168.230 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldagreiðslu launþega í lífeyrissjóð. Skattleysismörkin voru 162.398 kr. á mánuði árið 2020 og því er hækkun skattleysismarka 3,6% sem er í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs.

Í næstu töflu má sjá þróun helstu breyta tekjuskattskerfisins yfir þrjú ár.

Tryggingagjald

Í ársbyrjun 2021 mun skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækka um 0,25 prósentustig, úr 4,9% í 4,65%. Er sú aðgerð tímabundin í eitt ár og hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa kórónuveirunnar. Tryggingagjald í heild lækkar úr 6,35% í 6,10%.

Sjá nánar tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir