Ekkert lát á norðanstorminum

Skjáskot af vef Vegagerðarinnar.
Skjáskot af vef Vegagerðarinnar.

Enn er óveður á landinu og eru vegir víða illfærir eða lokaðir af þeim sökum. Þá fellur skólahald og skólaskstur niður á nokkrum stöðum. Norðan stormurinn sem geysað hefur um landið frá því í gær heldur sínu striki og er vonskuveður víðast hvar með tilheyrandi röskun á samgöngum. Á Norðurlandi vestra eru margir vegir lokaðir eða ófærir. Fjallvegirnir um Holtavörðuheiði, Vatnsskarð, Þverárfjall og Öxnadalsheiði eru lokaðir en á vef Vegagerðarinnar segir að verið sé að moka Öxnadalsheiði og takist vonandi að opna hana innan skamms.

Í Húnavatnssýslum er hálka á flestum aðalvegum en snjóþekja í Langadal og á Skagastrandarvegi. Sömuleiðis er hálka á Sauðárkróksbraut milli Varmahlíðar og Sauðárkróks og frá Varmahlíð að Öxnadalsheiði. Bleiki liturinn er nokkuð ráðandi í Skagafirði sem táknar að þar sé þæfingur. Þungfært er í Hjaltadal og Siglufjarðarvegur er lokaður frá Ketilási en þar er einnig óvissustig vegna snjóflóðahættu.

Skólahald fellur niður í Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi og í Varmahlíðarskóla og Tónlistarskóla Skagafjarðar á báðum stöðum. Í Húnaþingi vestra er enginn skólaakstur í dag.

Veðurspáin gerir ráð fyrir að áfram verði stíf norðanátt í dag og að ekki fari að ganga niður fyrr en með kvöldinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir