Hópur fólks stóð vaktina á Mannamótum

Freyja Rut Emilsdóttir á Mannamótum. MYND SSNV
Freyja Rut Emilsdóttir á Mannamótum. MYND SSNV

Það var vaskur hópur ferðaþjóna frá 18 fyrirtækjum af Norðurlandi vestra, sem stóð vaktina á Mannamótum landshlutana í Kórnum í Kópavogi í síðustu viku. Mannamót er ferðakaupstefna, vettvangur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki af landsbyggðinni að koma saman og kynna vörur sínar og vöruframboð fyrir fulltrúum ferðaskrifstofa sem flestar eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Feykir heyrði í Freyju Rut Emilsdóttur framkvæmdastjóra 1238: The Battle Of Iceland á Sauðárkróki sem var einmitt stödd á Mannamótum.

„Undanfarin ár hefur það verið að færast í aukana að erlendar skrifstofur eru að senda fulltrúa á Mannamót. Þetta er ólíkt mörgum öðrum ferðakaupstefnum að því leyti að það er ódýrara og það eru engir fyrirfram bókaðir fundir, þannig að þetta er aðgengilegra fyrir minni fyrirtæki og fyrirtæki sem kannski hafa ekki fjármagn til að sækja þessar stærri kaupstefnur og sýningar,“ segir Freyja

Þetta er frábær vettvangur til að hitta aðra í bransanum, sjá hvað er nýtt í boði á öðrum stöðum, í öðrum landshlutum. Sérstaklega mikilvægur vettvangur þeirra sem starfa í greininni til að hittast og kynnast, mynda ný tengsl og styrkja þau sem fyrir eru. Freyja segir líka að þetta sé með allra skemmtilegustu viðburðum fyrir starfsfólk ferðaþjónustu og er nú af miklu að taka, það er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi.

Þessi árlegi viðburður var í fyrsta sinn hluti af ferðaþjónustuvikunni, en að henni standa svona þessir helstu aðilar sem saman mynda stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Markaðsstofur landshlutanna, Íslandsstofa, Ferðamálastofa, Íslenski ferðaklasinn og SAF. „Það var þétt dagskrá í vikunni sem leið, nokkrir hliðarviðburðir, þar mætti nefna Máþing um vægi sögustaða og mennigararfs í ferðaþjónustu, vinnufundur um verkefni tengdu sjálfbærni og nærandi ferðaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt, “ segir Freyja. Hugmyndin er að safna saman viðburðum á vegum stoðkerfisins, þjappa þeim saman og búa þannig til svigrúm fyrir ferðaþjónustuaðila af landsbyggðinni til að kannski fækka ferðum á höfuðborgarsvæðið og um leið fjölga þeim sem hafa tök á að mæta á viðborði líkt og Nýársmálstofuna.

Freyja var svo spurð að því hvernig sumarið liti út? „Sumarið lítur vel út, fyrir okkur sem störfum í afþreyingu og kannski söfn og sýningar almennt þá er nú yfirleitt ekki meirihlutinn sem bókar slíkar heimsóknir með mjög löngum fyrirvara, en þó eru auðvitað einhverjir hópar og svo auðvitað skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustuna í Skagafirði að fá farþega skemmtiferðaskipa, bæði þeirra sem koma í land í Skagafirði en líka þá sem t.d koma í land á Akureyri. Við getum gert miklu betur til að ná til þeirra og bjóða uppá dagsferðir í Skagafjörðinn.“

„Það er almennt góð stemming og samstaða meðal ferðaþjónustufólks á Norðurlandi vestra, svæðið hefur uppá heilmargt að bjóða og við eigum mikið inni. Við mættum kannski vera duglegri að vinna saman með formlegum hætti en við erum dugleg að benda og mæla hvert með örðu, “ segir Freyja að lokum.

Fleiri myndir af Mannamótum má t.d nálgast á Facebooksíðu SSNV.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir