Feykir 40 ára í dag

Í dag eru 40 ár liðin frá því að fyrsta tölublað Feykis kom út 10. apríl 1981 en í kjölfarið var haldinn stofnfundur hlutafélags um útgáfu á frjálsu, óháðu fréttablaði á Norðurlandi vestra þar sem rúmlega þrjátíu hluthafar skráðu sig. Í stjórn voru kosnir Hilmir Jóhannesson, Hjálmar Jónsson og Jón F. Hjartarson. 

Þeir félagar fylgdu fyrstu blöðunum úr hlaði, ásamt félögum sínum í kjörinni forstöðunefnd sem auk þeirra var skipuð þeim Árna Ragnarssyni og Jóni Ásbergssyni, en fyrsti ritstjóri Feykis var ráðinn frá og með 1. september sama ár, Baldur Hafstað, og hófst þá regluleg útgáfa blaðsins.

Í leiðara Jóns F. Hjartarsonar í 3. tbl. fyrsta árgangs kemur sterkt fram hver tilgangur blaðsins er og hvaða væntingar hann hefur til lesenda og íbúa Norðurlands vestra gagnvart nýjum miðli sem þjóna mun svæðinu á alla lund:

„Nú hefur verið ákveðið að hefja reglubundna útgáfu frétta- og greinablaðs fyrir Norðurland vestra frá og með 1. september n.k. Ráðinn hefur verið afburðagóður maður sem ritstjóri blaðsins og er forstöðunefndin mjög vongóð um erindi þess og við tökur. Ef hugsað er til þess hlutverks sem Feykir getur gengt fyrir kjördæmið er ekki að efa að margar vinnufúsar hendur munu leggja blaðinu lið í framtíðinni. Feykir getur orðið vettvangur fyrir umræður um þróttmikla uppbyggingu í kjördæminu.

Ugglaust er Norðurland vestra það landsvæði Íslands sem getur náð hvað mestum framförum í náinni framtíð. Til þess þarf aukið samstarf sveitarfélaga og innbyrðis verkaskiptingu þeirra í milli til að gera kjördæmið sem sjálfstæðast og sjálfu sér nógt á sem flestum sviðum. Virkja

þarf alla þá ,,sundurlausu orku“ sem býr innan kjördæmisins, menn verða að losna úr viðjum vanans og ,,þröngrar hreppapólitíkur“ og líta á heildarhagsmuni kjördæmisins.

Þetta vita allir, skilja allir, og vilja allir, en það hefur vantað vettvang sem Feyki til að ræða málin til lykta. Í mörgum greinum og bókum um byggðaþróun er bent á, að hámarksuppbyggingarhraða megi einungis vænta ef beitt er langtímaskipulagningu (20-40 ára) við þróun landshluta þar sem tillit er fyrst og fremst tekið til heildarinnar. Ef litið er til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra virðist reglan vera sú að fjárhagsáætlanir séu gerðar 6 til 12 mánuði fram í tímann (dæmi eru um að fjárhagsáætlun sé samþykkt eftir að tímabil áætlunarinnar er hálfnað).

Verkefni þau sem sveitarfélög gangast fyrir bera og með sér að vel flest hinna stóru og veigamiklu verkefna sem sum eru ofviða einu eða fáum sveitarfélögum sitja á hakanum. Jafnvel stærstu hagsmunamál kjördæmisins svo sem uppbygging nýrra starfa í atvinnulífi eru stórlega vanrækt vegna stjórnskipunar sveitarfélaga og sambandsleysis þeirra í milli. M.a. þess vegna á Feykir erindi til lífs.

Skv. þessu er því eðlilegt að álykta að byggðaþróun á Norðurlandi vestra geti orðið hraðari og markvissari ef sveitarstjórnir temdu sér áætlanagerð til lengri tíma og lita á verkefni sín í ljósi heildarinnar. Af þessu sést að þörf er umræðna, umbóta og er vonandi að Feykir geti haft jákvæð byggðaþróunarleg áhrif með greinum þeim sem hann birtir.

En Feykir getur gegnt miklu stærra hlutverki en því að vera umræðugagn fyrir sveitarstjórnarmál, byggðaþróun og háalvarlega umræðu um stjórnmál. Allt það smáa og stóra sem menning og listir ala af sér þarf sitt rúm, og ekki má gleyma hvurndagsglímunni, hestamennskunni, kveðskapnum húmornum, fiskinum og salti grautsins.

Jón F. Hjartarson.“

Næsti Feykir verður tileinkaður stórafmælinu og munu birtast viðtöl og greinar því tengt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir