Hlustar líklega mest á tónlist frá 80's tímabilinu / RAGGI Z

Raggi Z. AÐSEND MYND
Raggi Z. AÐSEND MYND

Ekki greip umsjónarmaður Tón-lystarinnar í tómt þegar leitast var eftir því að Ragnar Z. Guðjónsson, eða bara Raggi Z, svaraði þættinum. Kappinn er fæddur á Blönduósi það herrans ár 1970 og ólst þar upp, sonur Kolbrúnar Zophoníasdóttur og Guðjóns Ragnarssonar. Nú býr hann í Hafnarfirði og titlar sig ritstjóra Húnahornsins góða – með meiru.

Kannski kom það einhverjum á óvart þegar það fóru að birtast myndir á samfélagsmiðlunum af Ragga á tónleikaferð um landið ásamt nokkrum félögum sínum. Hann segist hafa trommað á menntaskólaárunum og síðan ekki söguna meir „...fyrr en fyrir fjórum árum, þá voru teknir upp gamlir taktar.“ Spurður út helsta afrekið á tónlistarsviðinu segir hann það vera að spila í bandi með Birni Thoroddsen. – Sem er auðvitað bara ansi magnað.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Hello Sunshine – Bruce Springsteen. 

Uppáhalds tónlistartímabil? Nú er það svo að ég er alæta á tónlist og á ég mér uppáhalds lög frá öllum tímabilum. Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt tímabil væri það líklega 80s tímabilið. Viðurkenni það fúslega að líklega hlusta ég meira á lög frá því tímabili en öðrum. 

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég hef áhuga á að hlusta á alla nýja tónlist sem kemur út og eins og gengur fellur eitt í kramið en annað ekki. Þessa dagana hef ég verið að sperra eyrun yfir nýjustu lögum iðnaðarrokkarans Bruce Springsteen. Hef ávallt dáðst af þessum afkastamikla og sívinsæla lagahöfundi. 

Hvers konar tónlist var hlustað á þínu heimili? Allskonar tónlist, popp, rokk og klassík. Fjölbreytileikinn var allsráðandi.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kassettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ekki séns að ég muni það. Líklega hef ég fyrst eignast kassettu og tekið upp tónlist úr Ríkisútvarpinu. Svo minnir mig að fyrsta platan sem ég keypti hafi verið Geislavirkni með Utangarðsmönnum. 

Hvaða græjur varstu þá með? Þá hef ég notast við Sony græjurnar hjá mömmu og pabba. En ég svo eignaðist stórt kassettutæki með risahátölurum. Það var á break-dans tímabilinu og tók ég fullan þátt í því með tækið á öxlunum. 

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Líklega lög frá Bítlunum sem heilluðu mig snemma eða frá Paul Simon og Art Garfunkel en ég fílaði þá í botn á ákveðnu tímabili.  

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn (eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér)? Það getur ekkert lag eyðilagt fyrir mér daginn og fátt fer í taugarnar á mér. Og þegar maður hefur upp undir 20 útvarpsstöðvar í bílnum er lítið mál að skipta um stöð ef leiðinlegt lag kemur.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það fer nú eftir því hverjum er boðið í partíið. Ef það eru „unglingar“ á mínum aldri þá væri það tónlist frá árunum 1977-1987. 

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Fuglasöng væri ágætt, en léttan jazz eða blues væri líka vel við hæfi. 

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Þá væri ég til að prófa eitthvað nýtt og skella mér til Kaliforníu í júní á Carolina Country Music Fest. Kántríhátíðin er haldin á Myrtle ströndinni í Suður-Karolínu og er ég sannfærður um að hún yrði frábær skemmtun. Ég tæki auðvitað fjölskylduna með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Það hefur nú örugglega verið ný plata Guns N´Roses – Appetite for Destruction. 

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Hef alls ekki dreymt um að vera eða verða tónlistarmaður. Tónlistarmennirnir sjálfir hafa ekki áhrif á mig en tónlistin þeirra getur skapað ákveðin hughrif og haft þannig áhrif á mann á ýmsan hátt. Enginn einn skarar þar framúr.  

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Þær eru nú nokkrar sem nefna má, t.d. Sgt Peppers Lonly Hearts Club Band, Led Zeppelin og Dark Side of the Moon.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? 
Ventura Highway/America
Never Gonna Give You Up/Rick Astley
Don´t Stop Believin/Journey
Blue Monday/New Order
Let´s Dance/David Bowie
Sweet Child o‘ Mine/Guns N´ Roses.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir