Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar samþykkt

Framkvæmdir við Blönduskóla ber hæst af áætluðum fjárfestingum næsta árs. MYndFE
Framkvæmdir við Blönduskóla ber hæst af áætluðum fjárfestingum næsta árs. MYndFE

Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2021, ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2022-2024, var samþykkt á fundi sveitarstjórnar sl. þriðjudag. Í fjárhagsáætlun er áætlað að heildartekjur á næsta ári verði 1.283 milljónir króna og rekstrargjöld verði 1.322 milljónir og rekstur fyrir fjármagnsliði verði því neikvæður um 39 milljónir króna. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 57 milljónir 2021, en voru 45 milljónir 2019.

Fjárhagsáætun 2021 gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði neikvæð um 96 milljónir árið 2021, en útkomuspá gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins 2020 verði neikvæð um 120 milljónir króna. Fjárfestingar eru áætlaðar 136 milljónir króna, árið 2021 og ber þar hæst framkvæmdir við Blönduskóla. Reiknað er með lántöku að fjárhæð 200 miljjónir króna á árinu 2021, en afborganir langtímalána verði 142 milljónir á árinu. Langtímaskuldir munu hækka um liðlega 100 milljónir á milli ára.

Gjaldskrár hækka almennt um 2,7%, sem er í samræmi við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Í fundargerð segir:
„Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2021 er nú unnin við óvenjulegar aðstæður þar sem áhrif heimsfaraldurs COVID-19 hefur haft áhrif á rekstur og áætlanir allra sveitarfélaga í landinu, þar sem tekjur hafa dregist saman bæði frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og vegna lækkunar á öðrum tekjum, á sama tíma og launakostnaður hefur verið að hækka vegna áhrifa lífskjarasamninga.

Sveitarstjórn hefur verið sammála um þær áherslur að skerða ekki þjónustu og leitast við að halda framkvæmdum áfram eins og mögulegt er, með áherslu á að klára verknámsbyggingu við Blönduskóla á fyrri hluta næsta árs, þó svo að aðrar framkvæmdir verði að bíða þar til efnahagsástand hefur batnað.

Í ljósi aðstæðna þá mun staðan verða metin um mitt ár og gerðar viðeigandi ráðstafanir fyrir síðari hluta ársins, með væntingum um betri stöðu framundan.

Íbúum sveitarfélagsins hefur farið fjölgandi á síðustu þremur árum og voru 957 þann 1.desember 2020, og er allt útlit fyrir að sú fjölgun haldi áfram.

Sveitarstjórn vill þakka byggðaráði og starfsfólki Blönduósbæjar fyrir þá miklu vinnu sem liggur að baki gerð fjárhagsáætlunar og það samstarf sem náðst hefur við alla stefnumörkun á þessum óvenjulegum tímum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir