Fyrstu skammtarnir af bóluefni komnir til landsins

Frá kynningarfundi við móttöku bóluefnisins í morgun. Skjáskot af upptöku á vef Ríkisútvarpsins
Frá kynningarfundi við móttöku bóluefnisins í morgun. Skjáskot af upptöku á vef Ríkisútvarpsins

Fyrstu skammtarnir af bóluefni gegn kórónuveirunni bárust til landsins um níuleytið í morgun þegar vél með tíu þúsund skammta af bóluefni Pfizer og BioNTech lenti á Keflavíkurflugvelli.

Afhending bóluefnisins fór fram fyrr í morgun í vöruskemmu Distica í Garðabæ, en fyrirtækið sér um hýsingu og dreifingu bóluefnisins. „Þetta er stór dagur hjá okkur öllum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, þegar 10 þúsund skammtar af bólefni Pfizer og BioNTech komu í hús. Svandís sagði engan hafa trúað því að það væri hægt að þróa bóluefni á eins skömmum tíma eins og raunin er en aðeins er eitt ár síðan fyrsta tilfelli kórónuveirunnar greindist í heiminum. Ástæða þess hversu hratt hafi gengið að þróa efnið sé samstaða vísindamanna, stjórnmálamanna, þjóða og íbúa heimsins. Það skili nú árangri.

Svandís sagði að búið væri að tryggja nægt bóluefni fyrir þjóðina, og rúmlega það. Það sem umfram komi verði útdeilt til annarra þjóða. Heildarsamningur við Pfizer hljóðar upp á 170.000 skammta og benti Svandís á að bóluefnið frá Pfizer væri það eina sem hefði fengið leyfi í Evrópu, enn sem komið er, en margt myndi skýrast á næstu dögum og vikum. 50 þúsund skammtar væru væntanlegir fram í mars. Þá greindi hún frá því að samningur við Moderna yrði undirritaður 30. desember og leyfi væri væntanlegt í janúar. Þá væri leyfi fyrir bóluefnið frá AstraZeneca einnig handan við hornið

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði þetta mikinn gleðidag  og nú væri nýr kafli að hefjast í baráttunni við COVID-19. „Með komu bóluefnisins hyllir loks í það að við getum snúið baráttunni okkur í hag.“ Þórólfur hvatti alla landsmenn til að láta bólusetja sig því það væri forsenda þess að við næðum tökum á faraldrinum en jafnframt minnti hann á að við þurfum áfram að halda vöku okkar, sinna sóttvörnum og fara eftir reglum og ráðstöfunum sem eru í gildi.

Þegar búið er að fara yfir pappíra varðandi bóluefnið og lesa á hitasírita þarf Pfizer að gefa grænt ljós á að dreifing þess geti hafist að sögn Júlíu Rósar Atladóttur framkvæmdastjóri Distica.

Gangi allt samkvæmt áætlun hefjast bólusetningar á morgun og hafa þeir fyrstu sem verða bólu­sett­ir hér á landi fengið boð í bólu­setn­ingu. Ekki hefur enn verið gefið upp hver fær fyrsta skammtinn.

Upptöku af afhendingunni má finna hér á vef Ríkisútvarpsins

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir