Gæðingalist er keppni í þjálfun og heimavinnu, segir Fredrica Fagerlund

Fredrica og Stormur eftir keppni í gæðingaist á fyrsta móti Meistaradeildar KS í febrúar. Mynd af Facebook-síðu deildarinnar.
Fredrica og Stormur eftir keppni í gæðingaist á fyrsta móti Meistaradeildar KS í febrúar. Mynd af Facebook-síðu deildarinnar.

Sigurvegari gæðingalistar í Meistaradeild KS í hestaíþróttum er Fredrica Fagerlund á hestinum Stormi frá Yztafelli. Hún er reiðkennari frá háskólanum á Hólum, búsett í Mosfellsbæ ásamt manni sínum Sigurði H. Örnólfssyni og tveimur börnum þeirra fimm ára og fimm mánaða. Fredrica er finnsk að uppruna en flutti til Íslands fyrir þrettán árum.

Gæðingalist var fyrsta keppnisgrein mótaraðarinnar og fór fram þann 22. febrúar en í kvöld, 8. mars, er komið að fjórgangi. Feykir hafði samband og forvitnaðist um hvernig tilfinning það er að sigra í grein sem krefur jafn mikils af bæði knapa og hesti og raun ber vitni. „Tilfinningin er frábær, ég vissi að við Stormur værum sterk á svellinu en við vorum í mjög sterkum félagsskap og náðum við öllum markmiðum okkur þetta kvöld.“

Hvað geturðu sagt mér um gæðingalist, hvernig fer hún fram og hvað þarf að passa til að allt gangi upp?
„Gæðingalist er uppáhaldsgreinin mín, þetta er frábær keppnisgrein þar sem allar tegundir gæðinga geta keppt á sömu forsendum. Keppnisgreininni er skipt í þrjá styrkleikaflokka og er verið að keppa á 3. og mest krefjandi stigi í Meistaradeild KS. Knapinn hefur fimm mínútur til að sýna prógrammið sitt og þarf hann að sýna að lágmarki þrjár gangtegundir (alltaf tölt) og þrjár æfingar, en það eru ákveðnar skylduæfingar fyrir hvert stig.

Greinin er byggð upp sem spuni og knapanum gefst tækifæri til að flagga með því sem hann og hesturinn hans gera vel, en sýningar geta þess vegna orðið mjög fjölbreyttar og er því keppnisgreinin áhorfendavæn. Greinin ýtir undir sköpunargleði og hefur átt gríðarlega mikilvægan þátt í að þróa reiðmennsku á Íslandi. Til að ná góðan árangri í greininni þarf knapinn að vera með vel þjálfaðan gæðing sem hann þekkir vel, en oftar en ekki eiga þau pör sem ná mestum árangri í greininni margra ára samstarf að baki.“

Hvað heldurðu að hafi ráðið úrslitum að þið unnuð í gæðingalistinni?
Fredrica segir að þau Stormur séu búin að þróa sig saman í þessari grein í nokkur ár og ásamt því að vera með frábærar gangtegundir og mikla útgeislun sé hann orðinn það sterkur og mikið taminn að hún er farin að geta sýnt mjög krefjandi æfingar sem hafa háan styrkleikastuðul. „Þannig að hann skorar hátt fyrir alla þætti sem eru dæmdir og getur látið það erfiða líta út fyrir að vera auðvelt,“ segir Fredrica. Hún lýsir Stormi sem einstökum hesti enda norðlenskur að uppruna, nánar tiltekið úr S-Þingeyjarsýslu.

„Stormur býr yfir ótrúlegum vilja að gera knapanum til geðs. Hann er þó ekki alveg einfaldur og þar liggja þúsundir klukkustunda af vinnu að baki. Ég fæ hann í þjálfun rétt reiðfæran á sjötta vetur og heillast af honum og býðst mér að eignast helminginn. Þetta er búið að vera sannkallað langhlaup, en Stormur er stór og mikill hestur með einstaka hreyfigetu og hefur þurft tíma til að koma öllu heim og saman. Það gerði sigurinn enn sætari og var þetta mikill persónulegur sigur.“

Hvernig undirbýrðu þig fyrir svona keppni og keppnir almennt?
„Gæðingalist er keppni í þjálfun og heimavinnu og í mínum huga byrjar undirbúningurinn strax í frumtamningu. Ég byrja að púsla saman prógrammi með góðum fyrirvara en æfi ekki lokaútgáfu þess mikið fyrir keppni. Ég þarf að vita fyrirfram að ég sé innan tímamarka en geri oft breytingar fram að síðasta degi. Ég vil alltaf mæta vel undirbúin en fersk til leiks og finnst mér því mikilvægt að byrja að undirbúa mig og hestinn minn nógu snemma svo ég þurfi ekki að æfa stíft rétt fyrir mót, en þreyttur hestur nær ekki að afkasta eins og úthvíldur hestur. Síðan snýst það mjög mikið um að knapinn sé með hausinn rétt skrúfaðan á og hafi trú á verkefninu.“

Fyrir utan þátttöku í Meistaradeildarkeppni starfar Fredrica við tamningar, þjálfun og reiðkennslu í Mosfellsbæ. Á sumrin rekur hún reiðskóla fyrir börn ásamt manni sínum og á veturna er hluti þeirra hrossa notaður í reiðnámskeið fyrir fatlaða. „Opinberlega er ég ennþá í fæðingarorlofi, en eins og hestamenn þekkja er ekki auðvelt að vera í fríi og setja starfsemina í pásu. Og fyrst að maður er kominn í miðil norðursins þá er ég alltaf að leita að þægum barnahrossum í reiðskóla,“ segir Fredrica að lokum. Feykir óskar henni til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í hestamennskunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir