Hefðum ekki fært út efnahagslögsöguna | Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
Við minntumst þess á dögunum að hálf öld var liðin frá því að efnahagslögsaga Íslands var færð út í 200 mílur af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins undir forystu Geirs Hallgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra. „Það er engum blöðum um það að fletta að ákvörðun íslenskra stjórnvalda fyrir hálfri öld síðan, sem tekin var einhliða, var stórhuga og framsækin enda var Ísland á meðal fyrstu þjóða heims til þess að færa landhelgina út í 200 mílur,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra réttilega í grein sem hún ritaði á Vísi vegna tímamótanna.
Með þeirri ákvörðun hefði lokaskrefið verið stigið í því að ná stjórn á veiðum fiskistofna við Ísland svo mögulegt væri að nýta þá í þágu íslenzkra hagsmuna ritaði ráðherrann enn fremur. „Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um útfærslu fiskveiðilögsögunnar á fyrstu áratugum sjálfstæðis sýnir að fámennar þjóðir geta haft mikilvæga og afgerandi rödd á alþjóðavettvangi, m.a. þegar kemur að mótun þjóðréttarreglna. Ákvörðunin sýnir einnig mikilvægi þess að stjórnvöld á hverjum tíma hafi kjark og þor til að taka stórar ákvarðanir með framtíð þjóðarinnar og langtímahagsmuni hennar að leiðarljósi.“
Hægt er vitanlega að taka fyllilega undir orð Hönnu Katrínar. Við hefðum hins vegar ekki ítrekað fært út efnahagslöguna unz hún náði 200 mílum þvert á vilja margfalt fjölmennari Evrópuríkja eins og Bretlands og Vestur-Þýzkalands ef valdið til þess hefði ekki verið innanlands í höndum hérlendra ráðamanna kosnum af íslenzkum kjósendum. Þær einhliða ákvarðanir voru teknar í krafti fullveldisins með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi. Hefði Ísland verið í Efnahagsbandalagi Evrópu á þeim tíma, forvera Evrópusambandsins, hefði valdið til þess ekki lengur verið í íslenzkum höndum.
Fimm prósent af alþingismanni
Mikilvægt er að hafa þetta hugfast í ljósi áherzlu Viðreisnar, flokks ráðherrans, á það að Íslandi gangi í Evrópusambandið. Með inngöngu í sambandið færðist valdið yfir íslenzkum sjávarútvegsmálum til stofnana þess. Skýrt er kveðið á um það í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins að valdið yfir málaflokknum innan sambandsins sé alfarið í höndum þess. Hvergi eru þar fyrirvarar um staðbundna fiskistofna eða neitt slíkt. Vald Evrópusambandsins í þeim efnum er algert samkvæmt sáttmálanum og við inngöngu ríkja í sambandið verða efnahagslögsögur þeirra hluti af sameiginlegri lögsögu þess.
Viðbúið er að með orðum sínum um „afgerandi rödd á alþjóðavettvangi“ hafi Hanna Katrín verið að vísa til inngöngu í Evrópusambandið. Vert er að hafa í huga í þeim efnum að vægi Íslands við töku ákvarðana í ráðherraráði sambandsins, valdamestu stofnun þess, tæki fyrst og fremst mið af íbúafjölda landsins. Rétt eins og í tilfelli ríkja sem þegar eru þar innanborðs. Þetta þýddi að vægi landsins yrði 0,08% eða á við einungis 5% hlutdeild í þingmanni á Alþingi. Þetta yrði svonefnt sæti við borðið þar á bæ. Þetta ætti við um sjávarútvegsmál eins og langflesta aðra málaflokka.
Væntanlega segir það sig sjálft að við þær aðstæður tækjum við engar stórar einhliða ákvarðanir um sjávarútvegsmál okkar, svo vitnað sé til orða ráðherrans, eða önnur þau fjölmörgu mál sem færu undir vald Evrópusambandsins sama hvað liði kjarki og þori. Við hefðum einfaldlega ekki valdið til þess lengur. Ekki er annars nóg með það heldur hefðu þau fimm ríki sambandsins sem ekki eiga land að sjó, Lúxemborg, Austurríki, Tékkland, Ungverjaland og Slóvakía, meira um okkar sjávarútvegsmál að segja en við sjálf enda í öllum tilfellum fjölmennari ríki en Ísland og í flestum margfalt fjölmennari.
Verið að gera ávinninginn að engu
Margoft hefur komið fram í máli fulltrúa Evrópusambandsins að varanlegar undanþágur væru ekki í boði í sjávarútvegsmálum. Þar er átt við að við Íslendingar héldum stjórn sjávarútvegsmála okkar sem væru ekki undir vald sambandsins sett. Slíkar undanþágur hafa enda ekki verið veittar til þessa. Mikilvægt er að hafa í huga að svokallaðar sérlausnir eru ekki það sama og undanþágur eins og sumir hafa séð sér hag í að halda fram. Þær fela aðeins í sér afmarkaða breytta stjórnsýsluframkvæmd en breyta engu um það að valdið yfir málaflokknum er eftir sem áður í höndum Evrópusambandsins.
Hins vegar hafa Evrópusambandssinnar í seinni tíð viljað meina að ekki væri þörf á sérstöku fyrirkomulagi í sjávarútvegsmálum kæmi til inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þar nægði regla þess um hlutfallslegan stöðugleika. Hins vegar er reglan í raun aðeins vinnuregla ráðherraráðsins við úthlutun aflaheimilda til ríkja sambandsins, á sér enga stoð í Lissabon-sáttmálanum, breytti engu um það að valdið yfir íslenzkum sjávarútvegsmálum færðist til stofnana þess og mætti hæglega breyta í ráðinu eða afnema án samþykkis Íslands samanber vægið sem landið hefði við ákvarðanatöku innan þess.
Með inngöngu í Evrópusambandið færðist með öðrum orðum valdið til þess að taka ákvarðanir til að mynda um það hvað megi veiða á miðunum í kringum Ísland, hversu mikið, hvenær, hvernig og af hverjum til stofnana sambandsins. Vissulega fengi Ísland bæði sæti og rödd við borðið í þeim efnum en hefði enga tryggingu fyrir því að hlustað yrði á hana. Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið væri þannig verið að færa stjórn veiða úr fiskistofnum við landið úr landi öfugt við það sem gert var með útfærslu efnahagslögsögunnar og í reynd verið að gera að engu það sem ávannst með henni.
Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur, alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum) og stúdent frá FNV.
