Kvennaár 2025 | Arna Jakobína Björnsdóttir skrifar
Vegna skrifa í leiðara Feykis þann 2. nóvember sl. þá er vert að minna á að nú, 50 árum eftir Kvennafrídaginn, búa konur enn við kynbundið ofbeldi og misrétti af ýmsu tagi. Í tölfræði og staðreyndum sem aðstandendur Kvennaverkfalls hafa tekið saman birtist grafalvarlegur veruleiki kvenna. Tilkynningum um kynbundið ofbeldi fjölgar, launamunur kynjanna eykst, það er misrétti í verkaskiptingu á heimilum og hreyfingar sem ala á andúð gegn konum, hinsegin fólki og útlendingum er að skjóta rótum hér á landi.
Tölfræðin og staðreyndirnar fylgja hér með – þær eru óhugnanlegar og við minnum á að á bak við hverja tölu er manneskja.
- 40% kvenna hér á landi hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi.
- 14% stúlkna í 10. bekk hafa orðið fyrir líkamlegu kynferðisofbeldi af hálfu fullorðins einstaklings og 12% fyrir nauðgun þar sem gerandi er annar unglingur.
- Það sem af er Kvennaári 2025 hafa 121 kona og 100 börn dvalið í Kvennaathvarfinu því þau þurftu að flýja heimili sín sökum ofbeldis.
- 11% stelpna í 10. bekk hafa orðið fyrir heimilisofbeldi og 10% orðið vitni að því.
- Nærri helmingur allra stelpna í 10. bekk hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi og/eða verið beðnar um að senda nektarmynd af sér til annars aðila.
- Konur eru í miklum meirihluta brotaþola og karlar í miklum meirihluta gerenda í kynferðisbrotamálum.
- Ofbeldismenn eru oftast einhver sem konurnar þekkja eða hafa verið í nánu sambandi við.
- Fatlaðar konur eru líklegri en aðrar konur að vera beittar ofbeldi og það er erfiðara fyrir þær að segja frá eða sækja sér nauðsynlega aðstoð út af viðmóti, aðgengi og aðstæðna.
- Trans konur eru útsettari fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi, kynbundinni áreitni og fordómum, og um helmingur trans kvenna verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum.
- Aðeins er ákært í um 40% kynferðisbrotamála og um 50% þeirra er felldur niður.
- Kynbundið ofbeldi hefur svo víðtæk áhrif á öryggi og lífsgæði kvenna og stúlkna að OECD hefur skilgreint það sem heimsfaraldur sem sé viðhaldið með samfélagslegu samþykki.
LAUNUÐ OG ÓLAUNUÐ STÖRF
- Atvinnutekjur kvenna eru 19,8% lægri en atvinnutekjur karla.
- Meginástæða launamunar kynjanna er vegna vanmats á störfum kvennastétta.
- Konur sem starfa við ræstingar, umönnun barna, sjúkra, fatlaðs og aldraðs fólks eru á einna lægstu launum í íslensku samfélagi og búa við hvað mest álag í starfi.
- Heildartekjur kvenna dragast saman um 50% eftir fæðingu fyrsta barns en tekjur karla standa í stað.
- Fimm árum eftir fæðingu barns eru tekjur kvenna 25% lægri en þær voru fyrir fæðingu en rauntekjur feðra hækka og tíu árum síðar eru áhrifin enn til staðar.
- Konur brúa frekar bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla og eru líklegri til að vera í hlutastarfi sem bitnar á starfsferli þeirra og ævitekjum.
- Konur sinna heimilis- og umönnunarstörfum frekar en karlar þrátt fyrir að nær allar konur séu á vinnumarkaði.
- Konur sinna frekar þriðju vaktinni en karlar og þrátt fyrir að vera grundvöllur alls fjölskyldureksturs er slík vinna vanmetin og ósýnileg.
- Konur af erlendum uppruna eiga erfiðara með að ná endum saman en aðrar konur, laun þeirra eru lægri, vinnudagar lengri og starfsöryggi minna.
- Kvár upplifa sig ekki örugg á vinnumarkaði og treysta sér ekki til að vera þau sjálf í vinnunni af ótta við útskúfun.
- Ungir karlmenn eru neikvæðastir allra hópa gagnvart konum í leiðtogahlutverkum á Íslandi.
Samstaða kvenna og kvára fær ekkert staðist sem sýndi sig með þeirri miklu þátttöku þann 24. okt. sl. sem sannaði að vitund er um að ekki er komið á jafnrétti og nú má ekki stoppa.
Arna Jakobína Björnsdóttir
