Gæsin Blanda skilaði sér til Skotlands

Frá merkingu gæsanna í sumar. Mynd: Húnahornið.
Frá merkingu gæsanna í sumar. Mynd: Húnahornið.

Á vefnum Húnahornið hefur að undanförnu verið fylgst með afdrifum gæsarinnar Blöndu, sem merkt var á Blönduósi í sumar og fékk gervihnattasendi. Hafði Jón Sigurðsson óttast að einhver ólánssamur veiðimaður hefði slysast til að skjóta hana.

„Nú er mér létt og það ekki lítið. Blanda er komin í símasamband,“ segir Jón Sigurðsson á Facebook síðu sinni í dag. Hún hafði þá verið utan þjónustusvæðis síðan 12. nóvember, en þá spurðist til hennar í Skagafirði. Grágæsin Blanda sem fékk gervihnattasendi á Blönduósi í sumar hefur verið utan þjónustusvæðis frá 12. nóvember síðastliðnum en þá var hún í Skagafirði. Gæsin komst svo aftur í gervihnattarsamband er hún var komin til Skotlands, á Halladay ána sem rennur í Melvich flóa.

Á korti sem Jón birtir á síðu sinni kemur fram að Blanda var í Færeyjum í fyrradag, hvíldi sig á Suðuroyafirði milli Suðureyjar og Stóra-Dimun og klukkan 19 var hún komin í Lednagullin í Skotlandi. Jón segir það merkilegt að engar upplýsingar sé að finna um gæsina frá 12. nóvember en þá var hún stödd á túni við Saurbæ í Skagafirði.

Sagt er frá því á Húnahorninu að þann 18. júlí í sumar hafi 113 gæsir merktar á Einarsnesi við Blöndu. Ein grágæsin fékk gervihnattasendi, var útnefnd höfuðgæs Blönduósinga og fékk nafnið Blanda. „Jón Sigurðsson átti frumkvæðið af því að merkja gæsina og hefur verið réttnefndur guðfaðir hennar. Það var Arnór Þórir Sigfússon, gæsasérfræðingur, sem merkti gæsirnar. Til gamans má geta þess að síðast voru merktar 118 grágæsir á Blönduósi árið 2000 og er ein úr þeim hópi búin að skila sér heim á Blönduós síðan þá,“ segir á Húnahorninu.

Fleiri fréttir