Gjöf foreldrafélagsins til Leikskóla Húnabyggðar

Til vinstri: Ragnheiður Jónsdóttir, formaður foreldrafélagsins afhendir Sigríði Adnegaard leikskólastjóra kerrurnar. Til hægri: Hluti stjórnar foreldrafélagsins, ásamt leikskólastjóra og starfsfólki Vallabóls, stilltu sér upp við 6-barna kerruna.
Til vinstri: Ragnheiður Jónsdóttir, formaður foreldrafélagsins afhendir Sigríði Adnegaard leikskólastjóra kerrurnar. Til hægri: Hluti stjórnar foreldrafélagsins, ásamt leikskólastjóra og starfsfólki Vallabóls, stilltu sér upp við 6-barna kerruna.

Á dögunum afhenti Foreldrafélag Leikskóla Húnabyggðar leikskólanum að gjöf tvær barnakerrur fyrir 4-6 börn. Í tilkynningu frá Foreldrafélagi Leikskóla Húnabyggðar segir að hugmyndin sé að þær nýtist sérstaklega yngstu deild leikskólans sem nú er til húsa við Húnabraut 6 og auðveldi þannig heimsóknir þeirra upp í aðalbyggingu leikskólans. Ein 6-barna kerra hefur nú þegar verið afhent og von er á annarri 4-barna kerru í sendingu á komandi vikum.

Sigríður Aadnegard leikskólastjóri þakkaði foreldrafélaginu kærlega fyrir framtakið. Hún sagði við afhendinguna að tilkoma þessara kerra væri algjör bylting fyrir starf yngstu deildar leikskólans sem starfrækt er að Húnabraut 6, þar sem þær opna bæði möguleika á stuttum vettvangsferðum en ekki síst auknu samneyti við eldri nemendur leikskólans með heimsóknum upp á aðalstarfsstöð leikskólans.

Til fjármögnunar verkefnisins leitaði foreldrafélagið til fyrirtækja á svæðinu og óhætt er að segja að viðtökur þeirra hafi verið framar vonum. Foreldrafélagið vill því þakka sérstaklega eftirtöldum fyrirtækjum fyrir veittan stuðning: Ámundakinn, Átak, Bifreiðaverkstæði Blönduóss, Ísgel, Kjörbúðin, N1 píparinn, Óshús, Ósverk, Vilkó og Teni.

Heimild: Húnahornið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir