Húnavatnshreppur vill úttekt á rekstri Brunavarna Austur-Húnvetninga

Húnahornið segir frá því að sveitarstjórn Húnavatnshrepps vilji að hlutlaus aðili taki út rekstur og þörf á Brunavörnum Austur-Húnvetninga (BAH) í núverandi mynd og að þeirri úttekt verði lokið fyrir 15. febrúar næstkomandi. Á fundi stjórnar BAH 9. desember síðastliðinn var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 og nema framlög sveitarfélaganna tveggja sem standa að samlaginu samtals 52,6 milljónum króna.

Fram kemur í frétt Húna.is að framlögin hafi hækkað undanfarin ár og er ástæðan sögð m.a. vera aukinn launakostnaður vegna aukinnar bakvaktaskyldu og kostnaður vegna kaupa á nýju húsnæði. Fulltrúi Húnavatnshrepps í stjórn BAH lét færa til bókar á fundinum mótmæli við því að enn væru BAH reknar með slíku framlagi án þess að fram hefði farið úttekt og stefnumótun fyrir brunavarnir á svæðinu. „Þegar slíkar upphæðir af almannafé eru settar í einn málaflokk er nauðsynlegt að staldra við og spyrja sjálfan sig og aðra hvert stefnum við,“ segir í bókun fulltrúans sem sat hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar. Á sveitarstjórnarfundiHúnavatnshrepps 17. desember síðastliðinn er tekið undir bókunina.

Fulltrúar Blönduósbæjar í stjórn BAH lýstu undrun sinni yfir bókuninni, þar sem fulltrúi Húnavatnshrepps hafi ekki komið með neinar tillögur eða athugasemdir í umræðunni um fjárhagsáætlunina og kjósi að leggja fram tilbúna bókun eftir að áætlunin hafi verið afgreidd. „Mikil uppbygging hefur verið í rekstri og umgjörð Brunavarna í Austur-Húnavatnssýslu, á síðustu árum, með fullri þátttöku og án nokkurra athugasemda frá fulltrúa Húnavatnshrepps, og vissulega hefur það ásamt hertum reglum um brunavarnir haft áhrif til hækkunar í rekstri Brunavarna í A-Hún.,“ segir í bókun fulltrúa Blönduósbæjar.

Sjá nánar á Húni.is >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir