Leitin að Fugli ársins 2021 er hafin

Á vef Fuglaverndar segir að fuglar séu hluti af daglegu lífi fólks og flestir eigi sinn uppáhalds fugl og hverjum þykir sinn fugl fagur. „Í vetur hafa staðfuglar og vetrargestir glatt okkur með nærveru sinni en nú nálgast vorið og farfuglarnir fara að tínast til okkar á eyjunni fögru. Fuglavernd ætlar að fagna vorkomunni með kosningu á Fugli ársins 2021 og verða úrslitin kynnt á sumardaginn fyrsta.“

Keppnin er haldin á vegum Fuglaverndar og er tilgangur hennar að vekja athygli á málefnum fugla í gamni og alvöru og er stefnt að því að hún verði árviss viðburður. Fuglavernd hefur unnið úr þeim fjölmörgu tillögum sem bárust frá almenningi og valið 20 fugla sem munu keppa um titilinn Fugl ársins 2021.

„Atkvæði eru tekin að streyma inn eins og farfuglar að vori og er strax ljóst að um spennandi kosningu verður að ræða. Þeir 20 fuglar sem keppa um titilinn í ár hafa nú flestir orðið sér úti um kosningastjóra en rjúpa, stari og svartþröstur flögra þó enn í lausu lofti án sérstakra talsmanna. Það er fjölbreyttur og fagur hópur fólks úr öllum áttum og af öllum aldri sem hefur tekið að sér að stýra oddaflugi hinna fuglanna í keppninni. Margir hafa komið upp samfélagsmiðlasíðum fyrir fuglana sína sem Fuglavernd hvetur fólk eindregið til að fylgja,“ segir í tilkynningu frá Fuglavernd en á Fuglavernd.is má finna upplýsingar um keppendur, kosningakerfið og hlekk á kosningaeyðublað. Þar er einnig að finna upplýsingar um kosningastjóra fuglanna og hlekki á samfélagsmiðlasíðurnar sem þeir nota.

Kosningin stendur til kl. 18 þann 18. apríl 2021 og eru fuglavinir hvattir til að taka þátt og gefa sínum fugli byr undir báða vængi.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir