Mesta hlutfallslega fjölgunin á árinu í Akrahreppi

Horft til Akrahrepps en þar varð mesta hlutfallslega íbúafjölgunin á Norðurlandi vestra á árinu. Mynd: akrahreppur.is
Horft til Akrahrepps en þar varð mesta hlutfallslega íbúafjölgunin á Norðurlandi vestra á árinu. Mynd: akrahreppur.is

Íbúum á Norðurlandi vestra hefur fjölgað um 1,2% eða um 86 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 1. desember 2020 samkvæmt tölum Þjóðskrár. Mest fjölgaði í Sveitarfélaginu Skagafirði eða um 54 einstaklinga en hlutfallsleg fjölgun varð mest í Akrahreppi, 2,4%

Heildarfjöldi landsmanna er nú orðinn 368.620 og hefur þeim fjölgað um 4.492 á tímabilinu eða um 1,2%. Mest fjölgaði í Reykjavík eða um 2.051 íbúa en hlutfallsleg fjölgun á árinu varð mest í Fljótsdalshreppi, 14%, en þar fjölgaði um 12 einstaklinga. Íbúum fjölgaði í öllum landshlutum utan Vestfjarða þar sem fækkaði um 0,3% en Suðurland er sá landshluti sem bætti mestu við sig hlutfallslega eða um 1,8%.

Á Norðurlandi vestra fjölgaði í öllum sveitarfélögum utan Húnavatnshrepps þar sem varð óveruleg fækkun. Íbúar landshlutans voru 7.327 þann 1. desember 2019 en var kominn í 7.413 í upphafi þessa mánaðar. Sem áður segir fjölgaði mest í Sveitarfélaginu Skagafirði, þar voru 4.037 íbúar fyrir ári síðan en eru nú 4.091 sem er hlutfallsleg fjölgun um 1,3% eða 54 íbúa. Húnaþing vestra er næststærsta sveitarfélagið með 1.219 íbúa og þar hefur fjölgað um níu manns á árinu eða um 0,7%. Í Blönduósbæ fjölgaði um 15 manns, úr 942 í 957 sem er hlutfallsleg fjölgun milli ára um 1,6%.

Í Sveitarfélaginu Skagaströnd fjölgaði úr 473 í 475 eða um tvo íbúa sem gera 0,4% og í Skagabyggð fjölgaði einnig um tvo, úr 90 í 92 íbúa en það er hlutfallsleg fjölgun um 2,2%. Í Húnavatnshreppi fækkaði um einn íbúa eða 0,3%, úr 370 íbúum í 369. Akrahreppur er svo það sveitarfélag sem státar af mestu hlutfallslegu fjölguninni en þar bættust við fimm íbúar, voru 205 fyrir ári en eru nú orðnir 210 sem er 2,4% fjölgun.

Upplýsingar um íbúafjölda má nálgast á vef Þjóðskrár. Eru þær uppfærðar mánaðarlega og byggjast á skráðri búsetu einstaklinga í þjóðskrá þann 1. hvers mánaðar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir