Ný deiliskipulagstillaga fyrir Kálfshamarsvík

Frá Kálfshamarsvík. MYND: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON
Frá Kálfshamarsvík. MYND: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON

Á fundi sveitarstjórnar Skagabyggðar þann 16. febrúar sl. var samþykkt að endurauglýsa deiliskipulagstillögu fyrir Kálfshamarsvík. Deiliskipulagssvæðið er um 20 hektarar að stærð og er í samræmi við gildandi aðalskipulag. Kálfshamarsvík er á náttúruminjaskrá en í byrjun 20. aldar var þar útgerð um 100 manna byggð en var komin í eyði um 1940. Svæðið er nú vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem kallar á uppbyggingu á þjónustu og bætt aðgengi.

Skipulagssvæðið nær yfir allt landsvæði Kálfshamarsnes sem er í eigu sveitarfélagsins Skagabyggðar og að hluta til yfir landsvæði Saura sem nefnist Holtin, auk Framness sem er norðan Kálfshamarstjarnar. Einnig er land innanskipulagssvæðisins í landi Kálfshamars sem er austan Kálfshamarstjarnar.

Í tillögu að deiliskipulagi svæðisins segir m.a. að „...Sveitarfélagið Skagabyggð sótti um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir árið 2018 og fékk sveitarfélagið styrk vegna vinnu við deiliskipulag og hönnunar til uppbyggingar göngustíga. Lýsing á verkefninu í úthlutuninni var að Kálfshamarsvík hefur allt til að bera til að verða mikilvægur ferðamannastaður á frekar fásóttum Skaganum. ... Kálfshamarsvík er lítil vík á norðanverðum Skaga. Þar eru sjávarhamrar úr fallega formuðu stuðlabergi er myndaðist fyrir u.þ.b. tveimur milljónum ára og er sérkennileg náttúrusmíð. Í byrjun 20. aldar var útgerð og um 100 manna byggð í Kálfshamarsvík, en um 1940 var byggðin komin í eyði. Stuðlabergið gerir umhverfið stórbrotið ásamt vitanum sem þar stendur. ... Svæðið er vinsæll viðkomustaður ferðamanna en til að bæta aðstöðu ferðamanna að og um svæðið er þörf á að byggja þar upp aðstöðu og bæta aðgengi. Vegna þess er þörf á að skipuleggja svæðið og skilgreina betur aðkomusvæði, bílastæði, gönguleiðir, áningar- og útsýnisstaði ásamt því að staðsetja þjónustubyggingu og að setja önnur ákvæði sem ástæða er til að skilgreina í deiliskipulagi. Fyrirhuguð uppbygging er bæði til að vernda náttúru og minjar svæðisins og til að skapa gott og öruggt aðgengi að og um svæðið...“

Kynning á deiliskipulagstillögunni verður á bæjarskrifstofu Blönduósbæjar miðvikudaginn 1. mars frá kl. 10:00-12:00. Skipulagstillöguna má nálgast á heimasíðu Skagabyggðar undir skipulagsmál, á Facebook-síðu Skagabyggðar og á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum rennur út 7. apríl nk. og skal þeim skilað á netfangið skipulagsfulltrui@hunathing.is eða með bréfpósti stílað á skipulagsfulltrúa Skagabyggðar Hvammstangabraut 5, 530Hvammstanga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir