Reikna má með miklum breytingum í bæjarstjórn Blönduósbæjar
Nú styttist óðum í næstu sveitastjórnakosningar og eru líklega flestir núverandi fulltrúar farnir að huga að því hvort taka eigi slaginn að nýju nú í vor. Í hugleiðingum um kosningarnar á vef Húnahornsins segir að gera megi ráð fyrir miklum breytingum á sveitarstjórn Blönduósbæjar að afloknum kosningum.
Samkvæmt samtölum við núverandi fulltrúa og varafulltrúa í sveitarstjórn hafa sumir þeirra ekki gert upp hug sinn varðandi áframhaldandi setu en aðrir hafa tekið ákvörðun um að hætta. Einn þeirra er Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar, en hann hefur starfað að sveitarstjórnarmálum í 40 ár og ætlar nú að láta þar við sitja. Einnig hafa bæjarstjórnarfulltrúarnir Anna Margrét Jónsdóttir og Oddný María Gunnarsdóttir, sem og Valdimar Guðmannsson, varafulltrúi, tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á sér að nýju. Einnig hefur komið fram að Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri, mun hverfa til annarra starfa að kosningum loknum en hann hefur verið ráðinn sem aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra.
Nú er farin af stað vinna vegna hugsanlegrar sameiningar sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu og því má reikna með að kosningarnar gætu orðið sérstaklega áhugaverðar að þessu sinni.
„Eitt er víst að tvö mikilvæg málefni munu bíða nýrrar sveitarstjórnar, að ráða nýjan bæjarstjóra og taka ákvörðun um sameiningu sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög,“ segir að lokum á huni.is.