Sameiningar í Austur-Húnavatnssýslu - Kosið 5. júní

Í októbermánuði 2020 samþykktu sveitarstjórnir Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar að skipa samstarfnefnd um sameiningu sveitarfélaganna. Samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu til sveitarstjórna og leggur til að atkvæðagreiðsla fari fram laugardaginn 5. júní nk. í öllum sveitarfélögunum.

Nefndin leggur til að farið verði að undirbúa atkvæðagreiðslu og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum sveitarfélaganna. Einnig er lagt til við sveitarstjórnirnar að þær lýsi því yfir að þær muni ekki nýta heimild í 2. mgr. l20. gr. sveitarstjórnarlaga, komi til þess að sameiningartillaga verði samþykkt af íbúum í hluta sveitarfélaganna, nema að undangengnu samráði við íbúa.

Í því felst að hafni íbúar einhvers sveitarfélaganna tillögu um sameiningu í kosningum, munu aðrar sveitarstjórnir ekki taka ákvörðun um sameiningu þeirra sveitarfélaga án þess að hafnar verði nýjar sameiningarviðræður og kosið að nýju.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar fundaði um málið á fimmtudaginn og kemur fram í  fundargerð að hún leggi áherslu á að fylgt verði þeim áherslum sem fram hafa komið á fundum samstarfsnefndar með þingmönnum og ráðherrum varðandi brýn verkefni í atvinnu- og byggðarnálum í Austur-Húnavatnssýslu. Svo sem stuðningi við stofnun Umhverfisakademíu, uppbyggingu ferðamannastaða, og fjölgun starfa við innheimtuþjónustu sýslumanns á Blönduósi og Vinnumálastofnunar á Skagaströnd.

Þá er að mati sveitarstjórnar mikilvægt að átak verði gert í viðhaldi héraðs- og tengivega með það fyrir augum að tryggja greiðar samgöngur innan nýs sveitarfélags.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir