Séra Dalla Þórðardóttir lætur af störfum

Séra Dalla Þórðardóttir. MYND FACEBOOK
Séra Dalla Þórðardóttir. MYND FACEBOOK

Séra Dalla Þórðardóttir prestur í Skagafjarðarprestakalli hefur lagt fram beiðni til biskups Íslands um lausn frá embætti. Hún kemur til með að láta af embætti 1. desember n.k. Þá eru liðin ein 42 ár frá því hún tók til starfa sem prestur.

Dalla lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1981, sama ár var hún vígð til Bíldudalsprestakalls í Barðastrandarprófastsdæmi þar sem hún þjónaði í fimm ár. Árið 1986 flutti Dalla á Miklabæ í Skagafjarðarprófastsdæmi, þar sem hún býr enn.

Hún varð prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi 1995 og áfram í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi 2010, eftir sameiningu.

Það hafa verið miklar breytingar í Skagafirði innan kirkjunnar undanfarin misseri en prestaköllin, Glaumbæjar-, Miklabæjar-, Hofsóss- og Hóla- og Sauðárkróksprestakall voru sameinuð í eitt Skagafjarðarprestakall í janúar á þessu ári. Séra Gísli Gunnarsson var vígður til embættis vígslubiskups á Hólum í Hjaltadal í ágúst 2022, eftir að hafa verið sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli frá 1982. Séra Sigríður Gunnarsdóttir sem áður var sóknarprestur í Sauðárkróksprestakalli og Halla Rut Stefánsdóttir sóknarprestur í Hofsóss- og Hólaprestakalli verða áfram starfandi prestar í hinu nýja Skagafjarðarprestakalli. 

Dalla hefur þjónað Skagfirðingum og nærsveitungum í áratugi og ljóst að hennar verður saknað úr preststörfum, Feykir óskar henni velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir