Tillaga um að hafna lögfestingu íbúalágmarks sveitarfélaga felld

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið síðastliðinn föstudag og var það í fyrsta sinn sem landsþing fór fram í fjarfundi. Í frétt á vef sambandsins segir að ráðherra sveitarstjórnarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi ávarpað landsþingið og svarað spurningum landsþingsfulltrúa ásamt fjármála- og efnahagsráðherra. Áherslur sveitarstjórnarmanna voru sérstaklega á frumvarp sveitarstjórnarráðherra um breytingu á sveitarstjórnarlögum þar sem meðal annars er kveðið á um lágmarksíbúafjölda og um mikilvægi þess að tryggja sveitarfélögum fjármagn til að halda úti lögbundinni þjónustu þar sem tekjur sveitarfélaga hafa skerst verulega í kjörfar covid-19.

Á þinginu var lögð fram tillaga 20 sveitarfélaga, þar á meðal Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skagabyggðar, um að lýsa yfir andstöðu við áform um að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi yrði lögfestur. Tillagan er svohljóðandi:

„Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið 18. desember 2020, hvetur til eflingar sveitarstjórnarstigsins með sameiningum og stækkun sveitarfélaga. Þingið ítrekar stuðning við flest meginatriði stefnumótandi áætlunar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem Alþingi hefur samþykkt. Landsþing minnir á mikilvæga liði í aðgerðaáætlun sem ekki er farið að vinna að, svo sem um styrkingu tekjustofna sveitarfélaga, tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og fleiri mikilvæg atriði tillögunnar. Landsþing hafnar þó lögfestingu íbúalágmarks. Sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og lýðræðislegan rétt íbúa sveitarfélaga ber að virða, óháð stærð þeirra.“

Tillagan var naumlega felld en 54 greiddu atkvæði með henni og 67 lögðust gegn hennni.

Í þinglok tók Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, til máls og ítrekaði að frumvarp til styrkingar sveitarstjórnarstigsins hafi verið lagt fram á Alþingi og sé það því nú í höndum alþingismanna að taka ákvörðun um framhaldið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir