Tilslakanir á sóttvarnaráðstöfunum frá fimmtudegi

Sundlaugar mega taka á móti helmingi af hámarksfjölda gesta. Mynd af Facebooksíðu Íþróttamiðstöðvarinnar á Blönduósi.
Sundlaugar mega taka á móti helmingi af hámarksfjölda gesta. Mynd af Facebooksíðu Íþróttamiðstöðvarinnar á Blönduósi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti fyrir stundu um breytingar á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi næstkomandi fimmtudag og munu gilda í rúmar fjórar vikur eða til 12. janúar. Áfram verða tíu manna fjöldatakmörk víðast hvar, þó með nokkrum undantekningum.

Helstu breytingarnar felast í því að sundlaugum og baðstöðum verður heimilt að taka á móti helmingi af haámarksfjölda gesta, æfingar afreksfólks í einstaklingsíþróttum verða heimilaðar og íþróttaæfingar einstaklinga sem fæddir eru 2004 og fyrr eru heimilar með og án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild. Æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru þó ekki heimilar.

Verslanir mega nú taka á móti fimm manns á hverja 10 m² en að hámarki 100 manns. Veitingahús mega hafa 15 manns í rými og taka á móti gestum til klukkan 21:00 og loka klukkan 22:00.

Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir verða heimilir með allt að 30 manns á sviði, þ.e. æfingar og sýningar. Sitjandi gestir mega vera allt að 50 og þeim skylt að nota grímu en auk þess allt að 100 börnum fæddum 2005 og síðar. Hámarksfjöldi í jarðarförum verður 50 manns.

Ákvæði um fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu taka ekki til barna sem fædd eru 2005 og síðar.

Reglugerð um takmarkanir á skólahaldi vegna farsóttar verður að mestu óbreytt til áramóta en gert er ráð fyrir að kynna fljótlega nýjar reglur um skólastarf sem eiga að taka gildi 1. janúar 2021.

Sjá nánar hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir