Völvuspá 2018– frá Spákonuhofinu á Skagaströnd
„Síðasta ár var tilkomumikið ef litið er til stjórnmála og það var nú það sem okkur var mjög svo hugleikið þegar við vorum að spá í spilin fyrir síðasta ár. En það verður nú að segjast að við spákerlingarnar vorum nú ekki alveg með tímasetningar á hreinu en stjórnarslit og að kona yrði forsætisráðherra gekk svo sannarlega eftir of margt fleira. Veðurfars spáin var ótrúlega rétt hjá okkur, svo nærri lægi að veðurfræðingar eru farnir að leita ráða hjá okkur,“ segja spákonurnar í Spákonuhofinu á Skagaströnd sem löngu eru orðnar frægar fyrir sínar stórgóðu spár um það sem okkur hinum er hulið.
Landsmálin
Enn á ný hillir undir áramót og enn er ný skipan á stjórnmálunum.Tvennar kosningar á ári hverju, nú á síðustu tímum, ríkistjórn til hægri og vinstri tekin við og forvitnilegt hvernig henni muni vegna og hvort lífslíkur hennar séu betri en hinna sem eru gengnar fyrir ætternisstapa.
Við sjáum ekki annað í byrjun en að fólki gangi ágætlega að vinna saman í þessari ríkisstjórn, fjármálastaða ríkisins góð, nógu úr að spila. Það á samt eftir að vinna úr gamalgrónum ágreiningi, eins og það sé verið að velta sér upp úr smámunum. Gætið orða ykkar kæru ráðamenn, það er ekki hægt að standa við öll stóru loforðin. Fljótlega kemur upp óvænt vandamál sem reynist erfitt, uppstokkun óhjákvæmileg til að leysa vandann og árangur næst ekki átakalaust. Gætu orðið skipti á mönnum í stöðum. Það mun reyna verulega á samstarfið og liggur við stjórnarslitum og bjartsýni dalar.
Ungur maður sem hefur með fjármuni að sýsla hefur gengið í gegnum erfiðleika og er særður, en ekki lífshættulega, þarf að halda sjó til að ná bata.
Um mitt ár munu menn verða varir við breytta starfshætti þar sem fólk vinnur betur saman og minna verður um þras og málæði. Eitthvað sem allir hafa verið að bíða eftir, vinnufriður. Í framhaldi gengur allt betur en það þarf að gæta vel að hagsmunum landsins, það er eins og einhverjir hrægammar séu að ásælast Íslenska hagsmuni. Látið ekki glepjast. Hér má ekki óttast að taka á hlutunum, því mikið er í húfi fyrir framtíð landsins. En sem betur fer sjáum við ekki betur en að skynsemin mun hafa vinninginn.
Eitthvað kemur algjörlega á óvart, ekki að hálfu stjórnvalda, heldur gæti það verið tengt náttúruhamförum. Menn verða að bregðast skjótt við og gera sitt besta í stöðunni.
Við fáum ekki að kjósa aftur til alþingis á þessu ári, en engu að síður þó að styrkur og vilji til samvinnu sé til staðar þá er ein persóna innan ríkisstjórnarinnar sem leikur tveimur skjöldum og beitir lævísi. Loki kom upp í spilunum, það vísar ekki á gott.
Við lögðum spil fyrir formenn stjórnmálaflokkana líka og þá passar best að nota goðafræði spilin. Lögðum fyrst spil fyrir nýja forsætisráðherrann okkar og formann hjá Vinstri grænum.
Katrín
Formaður Vinstri grænna fékk Naglfara, Sinmara og Ýmir. Það er greinilegt að hún þarf að greiða úr gömlum vandamálum í hreyfingunni sem ekki hafa verið gerð upp, þótt þau séu svo sem ekki stór þá geta þessi litlu mál vaxið henni yfir höfuð. Hún verður að standa í lappirnar og það gerir hún, sterkari en áður.
Bjarni Ben
Formaður Sjálfstæðisflokksins var næstur og spilin hans voru Dellingur, Óðinn og Sigin. Já fólki finnst Bjarni vera hálfgerður súkkulaðidrengur. En Bjarni er klár og tillögugóður, hefði samt kunnað því betur að vera við stýrið. En hann er traustur og svíkur aldrei sína samstarfsmenn.
Sigurður Ingi
Framsóknarformaður fékk sjávarguðinn Njörð, Laufey og Darröð. Hann er náttúrulega á siglingu út á opið haf og óvæntir atburðir bíða hans, en hefur hann nógu mikinn kjark til að takast á við þessa óvæntu atburði?
Logi
Formaður Samfylkingarinnar, þar komu úr spilabunkanum; Skaði, Móði og Fulla. Nú verður Logi aðeins að fara að hugsa áður en hann framkvæmir eða bara áður en hann talar. Hann á það til að vera alltof fljótfær. Það vantar ekki hugmyndirnar og margar bara nokkuð góðar en hann þarf að sýna meiri rósemi þá gætu þessar hugmyndir orðið að veruleika og jafnvel að góðu gagni.
Sigmundur Davíð
Miðflokksformaður, hjá honum birtust Týr, Gandálfur og Njörður. Sigmundur hefur mikinn baráttuvilja og réttlætiskennd, hann vill alltaf vera í fylkingarbrjósti og það mun ævinlega reyna á hann. Hann hefur sterkan liðsmann sem styður við bakið á honum. Leggur svolítið út í óvissuna, fær Njörð eins og Sigurður Ingi, spurning hvort þeir fari saman út í þessa óvissu sem framundan er hjá þeim báðum.
Inga Sæland
Formaður Flokk fólksins fékk Góa, Sigin og Sif. Hún hefur svolítið fjarlægar hugmyndir en er trú sinni sannfæringu og traust sínu fólki. Skynsöm og fer sínu fram, enginn skildi vanmeta hana og það sem hún stendur fyrir.
Þorgerður Katrín
Formaður Viðreisnar ætti að athuga vel sitt bakland, einhver vinnur þar ekki að heilindum. Það verður reynt að bola henni frá og yfirtaka flokkinn. Hennar spil voru Loki, Þjassi og Nanna.
Þórhildur Sunna
Að lokum eru það spilin hjá formanni hjá Pírata. Forseti, Beyla og Freyr birtust okkur. Hún vill vera í forsvari og hún vill stjórna. Hefur mikinn áhuga á umhverfismálum og miklar hugmyndir, en vantar orku til að koma þeim í verk, það er of mikið talað og minna framkvæmt.
Lögðum við því næst spilalagnir og rúnir fyrir landvættina, þ.e.s. hvern landshluta fyrir sig og byrjum á Vesturlandi í skjóli nautsins.
Vesturland
Á Vesturlandi þurfa menn að huga að og nýta sér fortíðina og söguna. Einhver aðili ætlar sér stóra hluti. Hann er frekur og yfirgangsamur og betra að hleypa honum ekki of langt. Minnist Sturlu á Sauðafelli og hans ættmenna.
Norðurland
Norðurland þar sem gammurinn breiðir út vængi sína. Norðlendingar standa á tímamótum, rangar ákvarðanir hafa verið teknar en þó tekst að bæta úr, vonandi ekki of seint. Enginn stendur á gjallarbrú til eilífðar.
Austurland
Austurland undir verndarvæng drekans verður í blóma, fólksfjölgun og ný tækifæri. Nýjar dyr opnast. Kannski fara jákvæð áhrif Norðfjarðargangna að skila sér til íbúanna.
Suðurland
Á Suðurlandi í ríki jötunsins verða þó nokkrar framkvæmdir og allt að gerast. En svo vaknar surtur. - Eldgos hefst á suðurlandi og þá sanna almannavarnir ágæti sitt. Það þarf að bregðast skjótt við en allt fer á besta veg miðað við aðstæður.
Að lokum er það veðurspáin fyrir okkar svæði. Frá áramótum og fram eftir vetri verður árgæska, snjólétt og lítið um stormvirði. Á útmánuðum gerir hríðarskot en það stendur ekki lengi og við tekur róleg og farsæld tíð. Vorið verður fremur leiðinlegt í heild sinni, hrakviðra og hryssingssamt, hlýnar og birtir til í júní en það verður skammgóður vermir. Upp úr Jónsmessu verður svalt um tíma og hlýnar ekki að fullu fyrr en um hundadaga. Viðunandi tíð með þó nokkrum rigningarköflum síðsumars. Haustið átakalítið en ekki hlýtt. Kalt frá vetrarnóttum og fram í desember. Gott um jól og áramót 2018-2019.
Ekki láta fortíðina stela frá þér framtíðinni. Tíminn flýgur áfram og stundum uppgötvum við alltof seint að við höfum varið tíma okkar í hluti sem skipta í raun og veru litlu. Einbeitum okkur að því sem skiptir máli og setjum það í forgang. Það virðist stundum þurfa andstæða póla til að laða fram hið jákvæða.
Gleðilegt nýtt ár fullt af gleði, hamingju og ást. - Góðar stundir.
Áður birst í 48. tbl. feykis 2017.